Nýr VW Golf skutbíll á leiðinni
10.08.2005
Golf IV Variant.
Þegar Volkswagen kom á síðasta ári fram með fimmtu kynslóð Golf voru ýmsar undirgerðir Golf þegar tilbúnar að fara fyrirvaralítið í framleiðslu, t.d. opin sportgerð og hinn hábyggði Golf Plús, en engin skutbílsútgáfa. Skutbílsútgáfan af fjórðu kynslóð var látin duga og átti að vera áfram í framleiðslu auk þess sem kaupendum skutbíla stæði Passat skutbíll til boða. Þetta var íslenskum blaðamönnum tilkynnt þegar þeir voru úti í Wolfsburg til að kynnast nýja Golfinum snemma á síðasta ári.
En nú hafa menn greinilega söðlað um og ákveðið að koma fram með nýjan Golf 5 skutbíl á síðari hluta næsta árs. Nýi Golf skutbíllinn sem í Evrópu mun heita Golf Variant og Jetta Wagon í Ameríku, verður byggður í verksmiðju VW í Pueblo í Mexíkó. Í Pueblo er einnig nýja Bjallan byggð og síðarmeir Golf jepplingur eða mini-Touareg sem sést hefur bregða fyrir í reynsluakstri norður í Lapplandi og víðar.