Nýr VW rafmagns-póstbíll
Volkswagen vinnur nú að nýjum rafknúnum sérhönnuðum póstbíl í samvinnu við þýsku póstþjónustuna. Nýi bíllinn hefur fengið sama nafn og annar sérbyggður VW póstbíll frá sjöunda og áttunda áratuginum sem kallaður var Fridolin.
Volkswagen eT póstbíll. |
Innréttingar sérhugsaðar fyrir póst-manninn. |
Gamli Fridolin frá áttunda áratuginum. |
Gamli Fridolin var eiginlega VW 1500 sem búið var að skera toppinn ofan af og byggja í hans stað einkonar hús sem náði frá miðju húddinu og alveg yfir skottlokið. Nýi bíllinn er ekki ósvipaður smækkaðri VW Caravellu. Hann er sérstaklega innréttaður fyrir póstmenn sem dreifa pósti á heimilisföng, bréfum sem pökkum. En póstmaðurinn þarf ekki að hoppa undir stýri í hvert sinn sem hann þarf að færa bílinn, heldur er með fjarstýringu sem hann getur beitt til að láta bílinn elta sig meðan hann gengur hús úr húsi.
Tilraunaeintök þessa nýja póstbíls verða tekin í notkun á næstu vikum í tilraunaskyni í Potsdam, útborg Berlínar. Bíllinn er utanum sig á stærð við VW Polo, eða 4,09 m langur og innanrýmið er 4,9 rúmmetrar. Lofthæð í bílnum er þannig að menn standa uppréttir inni í honum. Tvöföld rennihurð er á hægri hlið sem stjórna má með fjarstýringunni. Utan á bílnum eru skynjarar sem sjá til þess að hann stansar ef hindranir eru í vegi hans þar sem hann lullar í humátt eftir póstmanni sínum
og ef varðhundar ógna póstmanni, gefur bíllinn frá sér hljóð sem róar æstustu hunda.
Tveir rafmótorar í sínu hvoru afturhjóli drífa bílinn áfram. Afl þeirra er samanlagt 96 kílóWött og hámarkshraðinn er 110 km á klst. Rafhlöðurnar rúma 32,1 kílóWattstund sem dugar til 100 km aksturs.