Nýskráningar fólksbifreiða 34% meiri en á sama tíma í fyrra
Nýskráningar fólksbifreiða eru orðnar 11.411 það sem af er árinu sem er tæplega 34% meiri sala en á sama tíma í fyrra. Nýskráningar allt árið 2020 voru 9.369.
Flestar nýskráningar eru í KIA og Toyota. Það sem af er árinu eru þær 1.682 í KIA og 1.665 í Toyota. Þessar tegundir skera sig úr því í þriðja sætinu er Hyundai með 1.029. Nýskráningar í Tesla eru 796, Volkswagen 616, Suzuki 594.
Hlutdeild rafmagnsbíla þegar fjórar vikur eru eftir af þessu ári er 26,2%, tengiltvinnbíla 25,5%, hybrid 18,8%, bensínbíla 16,9% og dísil 12,5%. Nýskráningar til almennra nota er 62,2% og bílaleiga 36,8%.
Óvissan í bílasölu á yfirstandandi ári var töluverð og réði þar mestu hvernig gengi í baráttunni við heimsfaraldurinn. Eins hvort rættist úr atvinnu- og efnahagsmálum og hvort ferðaþjónustan tæki við sér að ráði og myndi hefja á ný að fjárfesta í bílaleigubílum.
Spár gerðu ráð fyrir að það myndu seljast um 11.000 nýir fólksbílar á þessu ári og eru þær spár að ganga eftir og gott betur.