Nýskráningar fólksbíla í ágúst voru 581
Nú liggja fyrir sölutölur í ágúst og kemur þar fram að nýskráningar á fólksbílum voru 581 sem er um 27,7% minni sala en í sama mánuði í fyrra. Alls hafa á fyrstu átta mánuðum ársins selst 6254 nýir fólksbílar. Það er um 31,4% færri bílar yfir sama tímabil ársins 2019.
Fram kemur í tölum frá Bílgreinasambandinu að samdrátturinn helgast fyrst og fremst af færri nýjum bílaleigubílum. Þeir hafa dregist saman um tæp 60% á milli ára á meðan bílar til almennra fyrirtækja hafa aðeins dregist saman um 15,3%. Sala til einstaklinga hefu dregist saman um 4,1%.
Það sem af er árinu standa nýorkubílar fyrir meirihluta bílakaupa hjá einstaklingum, eða um 64,4%. Þetta hlutfall á sama tíma í fyrra nam 41,7%.
Svipað gildir um almenn fyrirtæki (önnur en bílaleigur) en 55,8% allra nýrra bíla sem þau hafa keypt á árinu eru nýorkubílar, samanborið við 38,5% á sama tíma í fyrra.
Kórónuveiran hefur haft veruleg áhrif á skráningu nýrra fólksbíla hér á landi. Bílaleigur líkt og ferðaþjónustan í heild hafa glímt við mikinn samdrátt. Í nokkur ár fór um helmingur nýskráðra fólksbíla til bílaleiga en sú sala hefur hrunið í ár. FÍB tók saman á dögunum tölfræði úr ökutækjaskrá Samgöngustofu um sölu fólksbíla hér á landi eftir orkugjöfum yfir fimm hálfsárs tímabil frá 2018 til júníloka í ár.