Nýskráningar nýrra bíla í Evrópu í mars
Í nýliðnum marsmánuði voru nýskráðir samtals 1.558.915 nýir bílar á evrópska efnahagssvæðinu. Það er 5% færri nýskráningar en voru í sama mánuði í fyrra. Á fyrstu þremur mánuðum ársins voru 3.583.185 nýir bílar nýskráðir. Það er 2,3 prósenta samdráttur miðað við sama tímabil í fyrra.
Í flestum helstu bílaríkjum Evrópu fjölgaði nýskráningum í mars miðað við sama mánuð í fyrra. Sú fjölgun nær þó ekki að vega upp þann mikla, en mismikla samdrátt í þeim ríkjum sem í hvað mestum efnahagsörðugleikum eiga um þessar mundir.
Í Frakklandi fjölgaði nýskráningum um 6,1%, í Þýskalandi um 11,4%. Mestur samdráttur í nýskráningunum miðað við mars í fyrra varð á Spáni, 29,1%, Ítalíu, 27,6%, og Bretlandi 7,9%.
Þegar litið er til fyrstu þriggja mánaða ársins varð mesta hlutfallslega fjölgunin í nýskráningum í Lettlandi, 131,7%. Á bak við þessa háu prósentutölu eru hins vegar einungis 1.902 nýskráningar. Mesta prósentufækkunin varð í Grikklandi eða 57,4%, á Spáni 27,3%, á Ítalíu 23,1% og í Bretlandi 8,7%. Þetta kemur fram á fréttavef ACEA, samtaka evrópskra bílaframleiðenda.