Nytjafegurð á sýningu
Hjá Dansk Design Center í Kaupmannahöfn stendur nú yfir sýning á átta bílum sem þykja skara fram úr í hönnun. Sýningin var opnuð þann 18. nóvember og stendur til 18. mars á næsta ári.
Dómnefnd bílasérfræðinga og hönnuða hefur valið bílana sem allir eru hver úr sinni áttinni og hver með sínu móti en hver um sig þykja skara fram úr í hönnun og markað stefnu til framtíðar á sínum tíma.
Bílarnir á sýningunni eru Citroën ID/DS (1955)
Morris Mini (1959)
Jaguar E-type (1961)
Ford Mustang (1965)
Ford Sierra (1982)
Ferrari Testarossa (1984)
Alfa Romeo 156 (1997)
Porsche 911 (2006).
Þær forsendur sem nefndin gekk út frá við valið voru þessar:
a) Bílar sem framleiddir hafa verið frá 1950 til þessa dags.
b) Bílar sem fengu útlit sitt út frá forsendum fagurfræði, hönnunar- og útlitssjónarmiða fremur en þeim sem lúta að aksturseiginleikum, sparneytni og hagkvæmni o.s.frv.
c) Bílarnir verða að vera eða hafa verið fjöldaframleiddir.
Citroën ID/DS (1955)
Hönnuðurinn var Flamino Bertoni (sem ekki má rugla saman við Nuccio Bertone, þann sem t.d. hefur hannað Lamborghini Countach). Flamino Bertoni gerði einnig frumteikningar að öðrum frægum Citroen bíl; 2CV eða bragganum. Útlit ID/DS bílsins var byltingarkennt en það voru aksturseiginleikar hans sömuleiðis, ekki síst vegna gas/vökvafjöðrunarkerfisins.
Ford Mustang (1965)
Mustang var sportbíll fátæka mannsins. Þegar hann kom á göturnar fyrst var hann ólíkur öðrum sportbílum. Hönnuðirnir voru David Ash, Joe Oros og Gail Halde.
Ford Sierra (1982) og Jaguar E-type (1961)
Tveir gerólíkir bílar hvað varðaði notagildi og verð. En með þeim hefst tímabil mjúkra lína í bílahönnun. Hönnuður Sierra var Uwe Bahnsen en Jaguar E var teiknaður af þeim William Lyons, Bill Heynes og Malcom Sawyer.
Alfa Romeo 156 (1997)
Bílablaðamenn og aðrir sem um bíla fjalla hafa ausið Alfa 156 lofi fyrir útlitsfegurð. Hann var valinn bíll ársins í Evrópu 1997 þegar hann kom fyrst fram. Í hönnun bílsins yst sem innst er mikið samræmi. Þetta er bíll m eð mjög góða og sportlega aksturseiginleika. Bíllinn er eiginlega sportbíll með rými fyrir alla kjarnafjölskylduna.
Morris Mini (1959)
Verkfræðingurinn Alec Issigonis teiknaði upphaflegt útlit þessa fræga smábíls á servíettu á veitingahúsi. Markmiðið var að gera fjögurra manna bíl úr vélarhlutum og búnaði sem verksmiðjurnar áttu þegar fyrir. Til að spara rýmið sem mest fann Issiconis upp á því að setja vélina og gírkassann þversum framí vélarhúsið og hafa drif á framhjólunum og öll fjögur hjólin sem næst hornum bílsins.
Auk ofannefndra bíla eru á sýningunni Ferrari Testarossa (1984) og Porsche 911 (2006). Auk þeirra gefur að líta ný hannaða bíla eftir því sem færi gefst á níunda sýningarstæði. Þeirra á meðal eru og verða Audi TT, BMW Z4, Volvo C30 og Toyota Avensis.