Nýtt breskt tryllitæki

http://www.fib.is/myndir/Ariel-Atom.jpg
Ariel Atom.

Lítið fyrirtæki í Somerset í Bretlandi með sjö starfsmönnum, hefur byggt bíl sem er einskonar millistig eða blendingur sportbíls, Go-Kart bíls og mótorhjóls. Fyrirbærið nefnist Ariel Atom og er tveggja manna. Burðarvirki bílsins er grind úr stálrörum og þar sem hún umlykur ökumanninn og farþegann er hún klædd gegnsæju plexigleri þannig að flest sem máli skiptir í bílnum, eins og stjórntæki og fjöðrunarbúnaður er sýnilegt.

Vélin í bílnum, gírkassi og drif er úr Honda Civic. Vélin er með túrbínu og er í kring um 300 hestöfl. Vegna þess hve bíllinn er léttur (500 Kíló) eru hestöflin jafngildi 600 hestafla á tonn, sem er talsvert meira en í Ferrari Enzo sem er einn aflmesti og dýrasti sportbíll samtímans. Viðbragð Ariel Atom er því með hreinum fádæmum og viðbragðið úr kyrrstöðu í hundraðið ræðst að langmestu leyti af því hversu ökumaðurinn er snöggur að skipta upp milli gíra. Þeir sem eru verulega fimir við skiptingarnar eru tæpar þrjár sekúndur að koma honum í hundraðið. Ariel Atom er einn viðbragðsfljótasti, stöðugasti og hraðskreiðasti sportbíll heims. Verðið er hins vegar ekkert í líkingu við það sem hraðskreiðustu sportbílar kosta. Við verksmiðjudyr er það einungis frá um 20 þúsund pundum eða um þrjár milljónir króna meðan dýru bílarnir kosta frá 10 milljónum upp í 100.

http://www.fib.is/myndir/Clarkson2.jpgJeremy Clarkson stjórnandi breska bílaþáttarins Top Gear tók Ariel Atom til kostanna nýlega. Hann segir á myndbandi úr þættinum að bíllinn sé einn fallegasti og skemmtilegasti akstursbíll sem hann hafi ekið og veiti algert akstursánægju-algleymi (Driving Nirvana). Hann vill ekki miða hann við t.d. hreina kappakstursbíla eins og t.d. Formúlubíla sem eru eitthvað smávegis sneggri og hraðskreiðari, en sem ekki mega vera á götum og vegum. Munurinn á þeim og Ariel Atom er sá að Atómið er löglegur götu- og vegabíll.

Clarkson mælir með því að þeir sem komnir eru á miðjan aldur og vilji láta lífshættulegan unglingadrauminn um aflmikið mótorhjól rætast – drauminn sem foreldrarnir sáu til að ekki rættist þegar þeir voru 17 ára – hugleiði frekar að fá sér Ariel Atom. Í honum sé slysahættan minni en á mótorhjóli.

Hálfgamlir kallar með ýstru verði heldur ekki jafn hlægilegir til að sjá í bílnum eins og þeir eiga á hættu að verða í leðurbúningi á mótorhjóli sem þeir hafa heldur alls ekki gott vald á. Minni hætta sé á að þeir detti og drepist og augun úr þeim lendi kannski í höfðinu á einhverjum sem þeim var í nöp við í lifanda lífi.