Nýtt danskt einkaleyfi fyrir vetnisbíla

http://www.fib.is/myndir/Ecomarathon1.jpg
Þetta er bíll DTU-nemendanna sem komst 25 kílómetra á 10 grömmum af vetni.

Danski tækniháskólinn, eða Danmarks Teknologiske Universitet (DTU) hefur fyrir hönd fjögurra nemenda skólans sótt um einkaleyfi á nýrri tækni í efnarafölum fyrir vetnisbíla. Tæknin leiðir til þess að vetnið nýtist miklu betur en áður hefur þekkst.

Nemarnir fjórir hafa unnið að þessari tækni undanfarna mánuði sem nú er verið að sækja um einkaleyfi á og prófað hana. Skemmst er að minnast þess að þeir settu heimsmet sl. vor í árlegri Shell EcoMarathon keppni þegar þeir óku vetnisbíl 25 kílómetra á 10 grömmum af vetni. Það samsvarar því að venjulegur smábíll kæmist 671 kílómetra á einum lítra af bensíni.

Einn fjórmenninganna heitir Lasse Clausen. Hann segir við ErhvervsBladet að tækni þeirra félaga felist í því að einangra og minnka orkutapið í efnarafölum og gera efnahvörfin miklu virkari. Hann gefur ekkert nánar upp um í hverju uppfinning þeirra félaga er fólgin, þar sem einkaleyfið er enn ekki í höfn.

En ætla mætti að í uppfinningunni felist einhverskonar tímamót því að stjórn DTU hefur greinilega svo mikla trú á henni að það er skólinn sem stendur fyrir einkaleyfirumsókninni og er þetta í fyrsta sinn sem DTU sækir um einkaleyfi á uppfinningu sem alfarið er verk nemenda. Rannsóknastjóri skólans segir við Børsen að uppfinningin eigi eftir að skipta mjög miklu máli bæði í efnahagslegu og þjóðhagslegu tilliti.

Tilkynningin um þessa uppfinningu er ekki sú fyrsta sem berst frá DTU því á síðasta ári fengu vísindamenn við skólann einkaleyfi á „vetnispillunni“ og var greint frá henni hér á fréttavef FÍB og í FÍB blaðinu á sínum tíma. Vetnispillan er eiginlega ammoníaksaltpilla sem bindur umtalsvert magn vetnis í sig. Vetninu er síðan náð úr pillunni með efnahvörfum. Pillan er því einskonar batterí. Hún er algerlega hættulaus, bruna- eða sprengihætta er engin og hægt er að endurhlaða hana aftur og aftur.