Nýtt met var sett í febrúarumferð á Hringvegi
Nýtt met var sett í febrúarumferð á Hringvegi (1), en aldrei áður hafa fleiri ökutæki verið mæld í febrúar. Umferðin reyndist þó aðeins 0,3% meiri en fyrra met, frá árinu 2020. Ef umferðin er borin saman við sama mánuð á síðasta ári, reyndist aukningin vera tæp 22%. Þetta kemur fram í tölum frá Vegagerðinni.
Mest jókst umferð um Suðurland eða tæp 35% en minnst um mælisnið á og í grennd við höfuðborgarsvæðið eða tæp 17%. Af einstaka mælistöðum reyndist aukningin mest um mælisnið á Mýrdalssandi eða rúmlega 58%. Rétt er að benda á að umferð í febrúar 2022 var óvenju lítil.
Fyrstu tvo mánuði ársins hefur umferðin aukist um rúmlega 17%, á Hringvegi. Mest hefur aukningin orðið á Suðurlandi og minnst við Höfuðborgarsvæði. Á sama tíma, á síðasta ári, hafði umferð dregist saman um 11% miðað við árið 2021.
Umferð vikudaga
Frá áramótum hefur umferð aukist í öllum vikudögum. Mest er aukningin á mánudögum, eða 36%, en minnst á sunnudögum, eða 4%. Umferð hefur að jafnaði aukist tvöfalt meira á virkum dögum, en um helgar, sem gæti gefið vísbendingu um aukin umsvif. Mest er ekið á föstudögum en minnst á laugardögum.