Nýtt met verði slegið í umferðinni í ár
Umferðin í nýliðnum nóvember jókst um rúm fimm prósent frá sama mánuði í fyrra. Umferðin í ár er þegar orðin meiri en hún var allt árið í fyrra þannig að ljóst er að met verður slegið í ár. Reikna má með að umferðin í ár verði 7,5-8 prósetum meiri en í fyrra. Það er gríðarlega mikil aukning á milli ára að því er fram kemur í tölum frá Vegagerðinni.
Umferðin í nýliðnum mánuði jókst um 5,2% fyrir 16 lykilteljara Vegagerðarinnar á Hringvegi, miðað við sama mánuð á síðasta ári. Við þessa aukningu var slegið nýtt met, í nóvemberumferð, fyrir umrædda mælistaði.
Í ljósi tengsla milli umferðar og hagvaxtar, kann þessi aukning að virka mikil, þegar hafðar eru í huga aðgerðir Seðlabanka Íslands til að slá á umsvif efnahagslífsins með stýrivaxtahækkunum. En þegar hlutfallslegur munur milli mánaða er skoðaður fyrir árið í heild má greina tilhneigingu til minni umferðaraukningar eftir því sem líður á árið.
Þá má einnig benda á að flest svæði, sýna litla breytingu eða samdrátt milli ára, en Suðurland sker sig úr með mikilli aukningu en þar mældist 12,2% aukning milli nóvember 2022 og nóvember 2023. Loks þarf að hafa í huga að góð veðurtíð, var í nýliðnum nóvember, sem sjálfkrafa hefur leitt til meiri umferðar, samkvæmt fyrri reynslu.
Þegar horft er á allt tímabilið frá áramótum, og það borið saman við sama tímabil á síðasta ári kemur í ljós 7,8% aukning. Ef frá er talinn ,,batinn“ eftir Covid-19 árið 2021, þarf að leita aftur til ársins 2017 til að finna meiri aukningu miðað við árstíma.
Uppsöfnuð umferð, frá áramótum, hefur aukist á öllum landssvæðum eða mest um Suðurland (13,4%) en minnst um Austurland (5,2%). Frá áramótum hefur umferðin aukist í öllum vikudögum og hlutfallslega mest hefur aukningin verið á mánudögum (9,9%) en minnst á föstudögum (6,3%).