Nýtt rafbílafyrirtæki býður í þrotabú Saab
Sænskt rafbílafyrirtæki; National Electric Vehicle Sweden, hefur staðfest við sænka dagblaðið Dagens Industri að það hafi lagt fram bindandi tilboð í þrotabú Saab í Trollhättan. Blaðið hefur eftir talsmanni fyrirtækisins að það sækist eftir því sem vörumerkið Saab stendur fyrir, þeirri þekkingu og kunnáttu sem þar er til staðar og svo verksmiðjunni sjálfri sem sé í hæsta gæðaflokki á heimsvísu.
Talsmaðurinn; Matthias Bergman segir að fyrirtækið hyggist framleiða bíla áfram í Trollhättan. Áhugi þess á Saab sé ekki nýr af nálinni því það hafi fyrir rúmu ári síðan leitað eftir aðkomu að Saab. Forstjóri National Electric Vehicle Sweden er Karl-Erling Trogen fyrrverandi forstjóri Volvo vörubílaverksmiðjanna. Aðaleigendur þess eru kínverskt orkufyrirtæki sem heitir National Modern Energy Holding og japanskt fjárfestingafélag sem heitir Sun Investment.
Matthias Bergman vill ekkert gefa upp hverjar fyrirætlanir forráðamanna National Electric Vehicle Sweden séu varðandi Saab, svo sem eins og hvað eigi að framleiða og fyrir hverja. Þó er leitt getum að því að stefnt sé að framleiðslu bíla á nýrri grunnplötu sem búið var að þróa hjá Saab áður en fyrirtækið fór í þrot. Þessi grunnplata er þannig hönnuð að auðvelt er að byggja á henni margar stærðir og gerðir bíla, þar á meðal rafbíla og tvíorkubíla auk bíla með hefðbundnar vélar.