Nýtt Shell V-Power bensín
Skeljungur hefur að nýju hafið sölu á 99 oktana bensíni – svonefndu V-Power bensíni. Oktantala bensíns segir að miklu leyti til um hversu hratt bensín brennur og því hærri sem hún er, því hraðar brennur bensínið. Af þeim sökum hentar bensín með hárri oktantölu vel bílum með hraðgengar og háþrýstar vélar.
Á fundi þar sem þessi nýja gerð V-Power bensínsins var kynnt fyrr í vikunni kom fram að eldsneytið hefur verið þróað í samvinnu Shell og formúluliðs Ferrari. Í því séu efni sem draga úr áhrifum núnings og úr núningsmótstöðu milli viðkvæmra vélarhluta og sem auk þess bæði hreinsa og halda halda sogkerfi vélanna hreinu sem stuðlar að góðu loftflæði inn í brunahólf vélanna. Þar með helst hámarks afli og lágmarks eldsneytiseyðsla.
Í fréttatilkynningu segir að hið nýja Shell V-Power henti fyrir allar bensínvélar sem hannaðar eru fyrir 95 eða 98 oktana blýlaust bensín. Hið nýja Shell V-Power sé hannað með það í huga að fá fram betri hröðun og viðbragð. Blanda megi V-Power bensíni við annað blýlaust bensín en mælt er með því að nota það reglulega til að eiginleikar þess nýtist að fullu.