Nýtt vopn gegn umferðarlagabrjótum
Starfshópur á vegum Evrópusambandsins er langt kominn með þróun nýs tækis til að stöðva bíla þeirra ökumanna sem hunsa boð lögreglu um að stansa heldur þvert á móti gefa í og reyna að komast undan. Af slíku og meðfylgjandi eftirför lögreglu skapast oft stórkostleg hætta. Nýja tækið er einskonar rafbyssa sem sendir sterkan rafsegulpúls í flóttabílinn sem lamar tölvubúnað hans og gerir hann þannig óökuhæfan þar til búið er að endurræsa tölvubúnað hans.
Flóttabílstjórar og ofsaakstursmenn gætu senn átt erfiðari daga í vændum en áður í tilraunum sínum til að komast undan löngum armi laganna: Segulbyssan gæti verið komin í lögregluhendur innan ekki langs tíma. Tilraunir með frumgerð hennar hafa staðið yfir um nokkurt skeið á lokuðu aksturssvæði í Þýskalandi og þykja lofa góðu.
Segulbyssuerkefnið nefnist SAVELEC. Það er sem áður segir unnið á vegum ES og kostað af því. Tæknin að baki tækinu er í sjálfu sér ekki flókin. Sjálft tækið sendir frá sér bæði sterkan rafsegulpúls og hátíðni-útvarpsbylgjur til flóttabílsins. Tölvukerfi hans bregst þannig við sendingunni að bíllinn hálflamast og missir afl svo að mjög hægir á honum eða hann stöðvast alveg.
Gerð og virkni tækisins sjálfs er þó ekki eina úrlausnarefni SAVELEC-hópsins heldur þarf líka að skoða vel lagaleg og siðferðileg rök fyrir notkun tækis af þessu tagi sem og hugsanleg heilsufarsleg áhrif þess. Í frétt frá ES segir að notkun tækisins megi aldrei fara í bága við lög og reglur, tækið verði að vera öruggt bæði fyrir þann sem beitir því og þann sem það er notað gegn og farþega hans og aðra þá sem kunna að lenda í ,,skotlínunni.”
Yfirlögfræðingur FDM, systurfélags FÍB í Danmörku segir engan vafa um að SAVELEC verkefnið sé áhugavert og að tækið geti stuðlað að bættu umferðaröryggi í þeim tilvikum þegar stöðva þarf háskalegan ofsaakstur án þess að meiriháttar eftirför þurfi að eiga sér stað.