Nýung frá Atlantsolíu til að koma í veg fyrir misdælingu á eldsneyti
Hér landi gerist það daglega að ökumenn dæla röngu eldsneyti á bíla sína. Fulltrúar FÍB tóku vandamálin varðandi misdælingu upp við Atlantsolíu með það að markmiði að finna lausn til að draga úr tjóni neytenda. Í framhaldi af því komu tæknimenn Atlantsolíu með þá hugmynd að forrita dælulykil þannig að einungis væri mögulegt að dæla einni tegund af eldsneyti með lyklinum.
Miðað við samanburðartölur frá Norður Evrópu og út frá könnun FÍB meðal þjónustuaðila hér á landi þá er líklegt að minnst 800 bifreiðaeigendur lendi árlega í því að dæla röngu eldsneyti á bíla. Oftast er um að ræða það að bensín fer á tankinn á dísilbíl. Mun sjaldnar kemur fyrir að dælt er dísilolíu á bensínbíla. Ástæða þess er einfaldlega sú að dælustúturinn á dísildælunum er sverari en á bensíndælunum og kemst því ekki ofan í áfyllingarstútinn á bensínbílunum. Mistök af þessu tagi geta valdið verulegum skemmdum á vélum og útblásturshreinsibúnaði og kallað á mjög dýrar viðgerðir. Nýlegt dæmi hér á landi er tjón á fólksbifreið sem kostaði hátt í 600 þúsund krónur að lagfæra.
Þótt skaðinn verði ekki alltaf talinn í hundruðum þúsunda króna vegna dælingarmistaka þá kosta þau alltaf talsverða fyrirhöfn, umstang og fjármuni. Oftast áttar fólk sig á mistökunum í tíma en í öllum tilfellum verður að flytja bílinn á verkstæði þar sem dælt er úr eldsneytisgeyminum og rétt eldsneyti sett í þess stað. Algengur kostnaður við dælinguna er 12-20 þúsund krónur en þar við bætist flutningskostnaður á bílnum á verkstæði og tankfylli af réttu eldsneyti.
Í heild má áætla að tjón af völdum misdælingar nemi minnst 20 milljónum króna ár hvert hér á landi. Búast má við að sú tala hækki með fjölgun dísilfólksbíla. Á Bretlandi dæla um 120.000 bifreiðaeigendur á röngu eldsneyti á bifreiðar sínar á hverju ári með ærnum tilkostnaði og fyrirhöfn.
Dælulyklar Atlantsolíu voru á sínum tíma nýjung í Evrópu og er þessi öryggislæsing lyklanna það sömuleiðis því að hún hefur hvergi annarsstaðar verið reynd. Öryggislæsingin hefur verið í notkun í tilraunaskyni hjá völdum hópi félagsmanna FÍB. Búnaðurinn virkar eins og að var stefnt og handhafar þessara sérstöku dælulykla mjög sáttir. Í ljósi þessarar reynslu hefur verið ákveðið að gefa öllum dælulyklahöfum Atlantsolíu kost á eldsneytisöryggislæsingu þeim að kostnaðarlausu. Dælulykillinn er þá forritaður þannig að einungis er hægt að dæla einni tegund eldsneytis.
Það er auðvelt að lenda í því að dæla röngu eldsneyti en það er kostnaðarsamt og veldur óþægindum, umhverfisskaða og tjóni á búnaði. Þessi tækninýjung getur komið í veg fyrir mistök hjá þeim bíleigendum sem nýta sér hana.