Beygjuljósin á gatnamótum Geirsgötu og Lækjargötu sæta gagngrýni
Töluverðar óánægju gætir á meðal ökumanna með stýringu beygjuljósa á gatnamótum Geirsgötu og Lækjargötu. Dæmi eru um að ökumenn á leið í vinnu og úr vinnu hafa lent þar í töluverðum umferðartöfum vegna knapps græns beygjuljóss á umræddum gatnamótum.
Seltirningar hafa m.a. lýst yfir óánægju sinni en margir úr bæjarfélaginu nýta sér þessa leið til vinnu og heim úr vinnu auk daglegra starfa. Samkvæmt frétt á mbl.is ætlar bæjarstjóri Seltjarnarness að óska eftir svörum frá borgarstjóranum um málið.
Haft er eftir forseta bæjarstjórnar Seltjarnarness, Magnúsi Erni Guðmundssyni, að þetta sé ólíðandi og óskað verði eftir svörum frá borgaryfirvöldum. Græna beygjuljósið varir í um sjö sekúndur samkvæmt mælingum og fyrir vikið myndast umferðarteppur á svæðinu
Sæbrautin eða Hringbrautin eru einu kostir Seltirninga á leið heim. „En þetta hefur ekki bara áhrif á Seltirninga. Þetta er líka allur Vesturbærinn og innnesið. Það var mikið kurr í okkur í vor þegar menn ætluðu að fara í að þrengja Hringbrautina en Vegagerðin stoppaði það. Síðan er það þessi leið,“ segir Magnús.
Framkvæmdir við Hafnartorg hafa haft áhrif á umferð í þó nokkurn tíma en Magnús segir að samkomulag hafi náðst um að hafa alltaf tvær akreinar í vesturátt. „Það var fyrirséð að það myndi eitthvað hægja á en ég held að engan hafi órað fyrir að það er beinlínis verið að stöðva umferð með ljósum.“
Magnús segir að hægt sé að greiða úr umferðinni til dæmis með því að samstilla ljósin auk þess að lengja græna ljósið. „Þarna er um að ræða stillingu einstakra ljósa. Ef að einhvern tímann á að vera lengri tími á ljósum er það til að grípa umferðarflæði þegar fólk er á leið í og úr vinnu.“
Nánari umfjöllun um málið í á mbl.is má nálgast hér.