Óásættanlegt tómlæti
Reykjavíkurborg sleppti því alveg að salta og sandbera og þar með hálkuverja götur og gangstéttir í gær þótt ærið tilefni væri til. Ennfremur hafa öll viðbrögð við vetrarríkinu og vinnubrögð verið í hreinu skötulíki. Mjög erfitt hefur verið fyrir fjölda borgarbúa að komast slysalaust leiðar sinnar að undanförnu og margir sem það reyndu um helgina fengu að súpa seyðið af því er þeir féllu á hálkunni og meiddust eða slösuðust. Fréttastofa RÚV óskaði skýringa á aðgerðaleysi borgaryfirvalda í gær og fékk skriflegt svar um að hálkuvarnir væru ekki skynsamlegar vegna óæskilegra umhverfisáhrifa salts og að sand þyrfir að sópa upp síðar.
Einar Magnús Magnússon upplýsingafulltrúi Umferðarstofu gagnrýndi þetta aðgerðaleysi og furðuleg svör borgarinnar harðlega í fréttum RÚV í morgun og sagðist ekki fyrr hafa heyrt slíkan rökstuðning fyrir því að hálkuverja ekki og sýna þannig öryggi vegfarenda lítilsvirðingu. Það sé skylda þeirra sem ábyrgð bera á vegum að hafa öryggi vegfarenda eins gott og mögulegt er. Það hafi ekki verið haft að leiðarljósi í gær.
FÍB tekur heils hugar undir með Einari Magnúsi og furðar sig á tómlæti borgaryfirvalda. FÍB hefur áður undrast af hversu miklu tómlæti og linku borgaryfirvöld hafa tekist á við vetrarríkið í borginni að undanförnu. Afleiðingar þessa tómlætis má sjá skýr merki í þeirri miklu slysabylgju sem gengið hefur yfir í borginni og er bein afleiðing skammarlegs aðgerðaleysis.
Talsmenn borgarinnar hafa borið fyrir sig kostnað sem fylgir því að tryggja samgöngur og hálku- og slysavarnir í vetrarríkinu sem er vond afsökun fyrir aðgerðaleysinu. Um helgina hafa verið sagðar og skrifaðar fréttir um gríðarlega slysabylgju og brotin bein fólks sem fallið hafði á hálkunni og yfirfullar slysa- og bæklunardeildir sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu. Hvað kostar eitt beinbrot í beinhörðum peningum? Hvað kostar það heilbrigðiskerfið og tryggingarnar? Hvað kostar það í vinnutapi? Hvað kostar það í þjáningum þeirra sem slasast? Hvað er eignatjónið orðið vegna aðgerðaleysisins?
Eitt er víst að sómasamleg og viðeigandi viðbrögð og vinnubrögð borgarinnar og fleiri sveitarfélaga við gatnahreinsun og hálkuvarnir hefðu sparað gríðarlegar fjárhæðir, þjáningar og röskun á daglegu lífi þúsunda fólks. Framganga borgarinnar er til háborinnar skammar og má ekki endurtaka sig.