Ódýr og einfaldur
Nýtt bandarískt bílafyrirtæki; Elio Motors ætlar að hefja fjöldaframleiðslu á litlum 2-3ja manna og þriggja hjóla bíl. Fjöldaframleiðsla á bílnum hefst á seinasta ársfjórðungi þessa árs og fyrstu kaupendurnir fá bíla sína afhenta í byrjun næsta árs.
Elio Motors hefur eignast GM bílaverksmiðju þá í Louisiana sem áður framleiddi Hummer bíla. Nokkrar frumgerðir Elio bílsins hafa verið byggðar og undanfarnar vikur og mánuði hefur verið farið með þá um þver og endilöng Bandaríkin í mikilli söluherferð sem enn stendur yfir. Þessa dagana eru þeir á Sundance kvikmyndahátíðinni í Park City í Utah-ríki.
Elio bíllinn er léttbyggður og einfaldur. Vélin er þriggja strokka 900 cc og 55 hestafla, ættuð frá Suzuki. Loftmótstöðustuðull bílsins er mjög lágur og bæði hann og hin lága þyngd þýða það að vinnsla og viðbragð er eins og gengur og gerist en eyðslan hins vegar mjög lítil, eða tæpir þrír lítrar af bensíni á hundraðið. Hámarkshraðinn er rúmlega 160 km á klst.
Elio bílnum er ekki síst ætlað að höfða til þeirra Bandaríkjamanna sem þurfa bíl til að komast til og frá vinnu, oft um langan veg. Eyðslan er svo lítil að hún heggur minni skörð í heimilisfjárhaginn en hjá notendum stærri og eyðslufrekari bíla. Svipað gildir um verðið því að það er mjög hóflegt, eða rétt undir sjö þúsund dollurum.
Vart verður annað sagt en að forsöluherferðin hafi gengið þokkalega því að sex þúsund manns eru sagðir hafa staðfest pantanir sínar sem trúlega nægir til að ræsa framleiðsluna og halda henni í gangi fyrsta árið eða svo.