Ódýrasti bíll heims

http://www.fib.is/myndir/TataNano.jpg
Tata Nano.

Um áttaleytið í morgun var ódýrasti bíll veraldar afhjúpaður á alþjóðlegu bílasýningunni í Nýju Dehli í Indlandi. Bíllinn er hugarfóstur arkitektsins Ratans Tata, stjórnarformanns bílaframleiðslufyrirtækja Tata fjölskyldunnar í Indlandi. Bíllinn mun kosta nýr án allra bifreiðagjalda aðeins um 155 þúsund ísl. kr. Það gæti þýtt að á Íslandi myndi hann kosta, kominn á götuna um 400 þúsund krónur.

Bíllinn heitir Tata Nano. Hann er fjögurra dyra og fjögurra sæta. Vélin er afturí og drífur afturhjólin. Hún er 624 rúmsm og 33ja hestafla. Bíllinn er eins einfaldur og hugsast getur. Í honum er enginn lúxus eins og loftkæling eða rafknúnar rúðuvindur og fjarstýrðar samlæsingar, hvað þá aflstýri, enda gerist þess síðastnefnda varla þörf þar sem bíllinn er mjög léttur.

Í byrjun verða framleidd 250 þúsund eintök af Tata Nano sem fara eiga á heimamarkaðinn. Gert er ráð fyrir að auka framleiðsluna fljótlega upp í milljón bíla á ári. Lífskjör fólks í Indlandi hafa farið hraðbatnandi undanfarin ár og er búist við að eftirspurn eftir bílum í þessu fjölmenna ríki eigi eftir að fjórfaldast fram til ársins 2016. Algengasta frartæki indverskra fjölskyldna er skellinaðran og því má segja að þessi ódýri bíll komi á hárréttum tíma tll að koma fjölskyldunum á fjögur hjól í stað tveggja.

Það var Ratan Tata sem afhjúpaði Tata Nano á bílasýningunni í Nýju Dehli í morgun. Hann sagði að verkfræðingar og hönnuðir fyrirtækisins hefðu lagt sig alla fram undanfarin fjögur ár við að gera þennan bíl að veruleika – bíl sem væri einn af stóru áföngunum í bílasögunni. Tata Nano væri öruggur og hagkvæmur bíll og raunverulegur bíll fólksins, hann uppfyllti öll öryggisviðmið sem og mengunarviðmið og allir hefðu ráð á að eignast hann.

Ratan sagði að búið væri að eyðslu- og mengunarmæla bílinn og að hann væri innan mengunarmarka og eyddi um fimm lítrum af bensíni á hundraðið. Loks væri dísilvél væntanleg innan tíðar. Síðan sagði Ratan: „Ég horfði eitt sinn upp á fjölskyldu að ferðast um á skellinöðru, faðirinn við stýrið, ungt barn standandi fyrir framan hann og eiginkonan sitjandi fyrir aftan haldandi á smábarni í fanginu. Þetta fékk mig til að hugleiða hvort ég gæti gert bíl sem væri ódýr en engu að síður öruggt farartæki í öllum veðrum fyrir fjölskyldur eins og þessa. Nú er það orðið að veruleika, kominn er fram raunverulegur fólks-bíll.“

Tata sagði að Nano yrði til sölu á heimamarkaðinum, Indlandi fyrstu 2-3 árin en eftir það yrði fyrst farið að huga að útflutningi til Afríku, S. Ameríku og S.A. Asíu.

Bílaeign í Indlandi er ekki almenn enn sem komið er. Aðeins um það bil átta af hverjum þúsund íbúum eiga bíl. Megin einkafarartæki almennings eru skellinöðrur og lítil mótorhjól. Á árunum 2006 og 2007 seldust um sjö milljón slík farartæki í Indlandi og algengt verð á meðalstóru nýju mótorhjóli er svipað og verð nýja bílsins, Tata Nano.