Ódýrasti bíllinn Tata Nano
Hið indverska Tata Motors boðar nú það að ódýrasti nýi bíllinn í heiminum, sem er Tata Nano, fáist brátt með dísilvél. Vonast er til að með dísilvél verði Nano seljanlegri.
Tata Nano var upphaflega hugsaður sem ódýr bíll handa fátæku fólki í Indlandi sem fyrst og fremst notast við lítil mótorhjól og skellinöðrur til að komast milli staða. Oft má sjá heilu fjölskyldurnar margmenna á skellinörðunum í þungri umferðinni og ósjaldan verða mikil og alvarleg slys af þessu. Því vildi Ratan Tata forstjóri byggja ódýran bíl sem fátækt fólk yrði öruggari í en á skellinöðrunum.
Það hafa því verið vonbrigði hversu Tata Nano hefur selst langt undir áætlunum. Með dísilvél er vonast til að betur gangi enda er hún sparneytnari en bensínvélin. Ennfremur er metangasútgáfa væntanleg fyrir áramót. Dísilvélin er þriggja strokka, 800 rúmsm og á hún að skila bílnum eina 30 kílómetra á hverjum dísilolíulítra.
Þegar Tata kom fyrst á markað í Indlandi fyrir fáeinum árum reyndist eftirspurn eftir honum vera langt undir væntingum. En vont getur versnað og síðan hefur hún minnkað um 27 prósent að meðaltali.á hverju ári og um 35 prósent fyrstu fjóra mánuði ársins miðað við sama tíma í fyrra. Tata Nano á í harðri samkeppni við dísilknúna og mjög sparneytna smábíla frá Honda.