Ódýrasti Skódinn með ESP sem staðalbúnað
12.12.2005
Skoda Fabia.
Framvegis verða allar gerðir Skodabíla í Svíþjóð seldar með ESP skrensvörn eða stöðugleikabúnaði. Þar með er Skoda fyrsti bílaframleiðandinn sem kemur til fulls móts við EuroNCAP sem sterklega hefur mælt með búnaðinum og hvatt bílakaupendur til að líta ekki við öðrum bílum en þeim sem eru með búnaðinum, séu þeir á annað borð í þeim hugleiðingum að endurnýja heimilisbílinn.
Ódýrasti Skodabíllinn er smábíllinn Skoda Fabia og verður stöðugleikabúnaðurinn framvegis staðalbúnaður í honum sem öðrum og dýrari og stærri Skodabílum. ESP stöðugleikabúnaður hefur fram að þessu verið nokkuð dýr en vart verður það sagt að búnaðurinn verði kaupendum Fabia til trafala því að bíllinn hækkar í verði í Evrópu um einungis 15 þúsund ísl. krónur.
Prófessorinn og læknirinn Claes Tingvall stjórnarformaður EuroNCAP og umferðaröryggisstjóri sænsku vegamálastofnunarinnar segir við Auto Motor & Sport að þetta framtak Skodaverksmiðjanna sé til fyrirmyndar og hann vonist til að aðrir bílaframleiðendur sem keppa á evrópska bílamarkaðinum fylgi þessu góða fordæmi Skoda.
ESP stöðugleikabúnaður og skrikvörn minnkar hættu á alvarlegum umferðarslysum um 25% samkvæmt rannsóknum sem gerðar hafa verið og birtar nýlega. Þetta á við um eðlilegar aðstæður á vegum, en sé hins vegar hálka þá getur búnaðurinn dregið úr slysahættunni um 50% samkvæmt sömu rannsóknaniðurstöðum.
Minnsti Skódinn framvegis með ESP sem staðalbúnað.