Öflugt vöktunarkerfi í Hvalfjarðargögnunum
Í fréttum sjónvarpsins í gærkvöld var greint frá því að búið væri að taka í notkun í Hvalfjarðargöngunum sjálfvirkt vöktunarkerfi í göngunum með alls 57 myndavélum. Nýju muyndavélarnar bætast við þær 24 sem fyrir voru. Nýja kerfið bregst samstundis við öllu sem telja má óeðlilegt í göngunum þannig að allur viðbragðstími er nú mun skemmri en áður. Á heimasíðu Spalar sem á og rekur Hvalfjarðargöngin segir að göngin séu nú mun betur vöktuð en nokkur annar kafli í samanlögðu þjóðvega- og gatnakerfi landsmanna.
Í fyrrnefndri frétt Sjónvarpsins segir að uppsetning nýja vöktunarkerfisins sé m.a. til að bregðast við öryggiskönnun EuroTAP sem gerð var snemma í sumar. Í könnuninni reyndist öryggi vegfarenda í göngunum vera hið minnsta af þeim 26 evrópsku jarðgöngum sem þá voru tekin út. Þessu er neitað í frétt á heimasíðu Spalar. Aðdragandi að kerfinu og undirbúningur hafi átt sér stað löngu áður en EuroTAP könnunin var gerð. Geta skal þess að könnunin umrædda var gerð að frumkvæði FÍB sem óskaði eftir sambærilegum úttektum á íslenskum veggöngum og FÍB hefur staðið að á vegakerfinu undanfarin fimm ár.
En algerlega burtséð frá því hvaðan frumkvæðið er ættað að nýja búnaðinum í Hvalfjarðargöngunum ber að fagna því að verið er að vinna að auknu öryggi þeirra sem um göngin fara. Nýja vöktunarkerfið er mikill og góður áfangi á þeirri vegferð að gera þau – og önnur íslensk jarðgöng – þannig úr garði að þau standist samanburð við það besta sem gerist í öðrum löndum Evrópu.
Þegar niðurstöður EuroTAP könnunarinnar tóku að birtast í fjölmiðlum að áliðnu sumri urðu viðbrögð hér á landi vægt sagt misjöfn. Jafnvel æðstu menn samgöngumála landsins gerðu lítiið úr niðurstöðunum. Göngin væru í rauninni ágæt og úttekt hins þýska verkfræðings sem hingað kom hefði verið illa unnin og fréttinni jafnvel laumað af illkvittni í erlenda fjölmiðla.
Á heimasíðu Spalar mátti lesa að Spölur hefði styrkt úttektina með einni milljón króna og að mat manna væri að skoðunin á þeim hefði ekki verið ítarleg. Skoðunarmaðurinn hefði einungis staldrað við um klukkustund niðri í göngunum. Einnig væri það rangt hjá EuroTAP að segja að öryggisáætlun ganganna væri úrelt.