Ófúsir til að samnýta bílinn með öðrum
Í Evrópuríkjum gerist það æ algengara að fyrirtæki og vinnustaðir skipuleggi ferðir starfsfólks til og frá vinnu og á vinnutíma, m.a. með því að leggja til samnýtingarbíla sem fólkið getur gripið til þegar þörf krefur og einnig til að samnýta með öðrum á leið til og frá vinnu. Bílarnir geta ýmist verið einkabílar starfsfólks eða bílar sem fyrirtækin útvega í þessum tilgangi.
En mjög er misjafnt eftir þjóðum hversu vel þetta gengur. Það staðfestir rannsókn sem gerð var í Evrópu fyrir LeasePlan – fyrirtæki sem skipuleggur rekstur flota samnýtingarbíla. Kannað var hversu viljugt fólk var til að leggja heimilisbíla sína fram og leyfa samnýtingu þeirra (Car Pooling) þegar það er ekki sjálft að nota þá. Mjög reyndist misjafnt eftir þjóðum hversu fólk var viljugt til þessa. Neikvæðastir reyndust Norðmenn. Þar sögðu 88 prósent aðspurðra þvert nei. Fúsastir voru Tékkar. Aðeins 38 prósent þeirra sögðu nei.
– Það er leitt að ekki fleiri sjái kostina við að samnýta bílana með vinnufélögum sínum. Margir bíleigendur nota ekki bíla sína daglega og þá standa bílarnir ónotaðir og engum til gagns, jafnvel dögum saman. Skynsamlegra væri að félagarnir ættu þess kost að nýta bílinn þegar eigandinn þarfnast hans ekki. Það væri bæði hagkvæmt og í góðu samræmi við forsendur deilihagkerfis nútímans, segir Lisa Midbrink sérfræðingur hjá LeasePlan við Motormagasinet í Svíþjóð.
Þessar fimm þjóðir eru tregastar Evrópusambandsþjóða til að leyfa öðrum að nýta bíla sína. Nei við því sögðu...:
Noregur 88%
Holland 84%
Svíþjóð 81%
Belgía 72%
Danmörk 71%
Rannsóknin var gerð af TNS Sifo fyrir LeasePlan dagana 21. apríl – 24. maí 2016. Svör bárust frá 4 869 manns 18 ára og eldri í 22 Evrópuríkjum. Kynjahlutfall var nokkurnveginn jafnt og allir svarendur höfðu ökuréttindi og höfðu bíla í langtímaleigu.