Ógæfa þjóðkunnra - hreyfiafl endurbóta?

http://www.fib.is/myndir/Hellish.jeppi.jpg

Til Sunnlendinga og landsmanna allra!

Varðandi annars fróma baráttu fyrir breikkun Hellisheiðar er rétt að
benda á eftirfarandi atriði, sem sanna að árangur næst kannski fyrst
og síðast með því að persónugera málið. Röksemdirnar einar duga
skammt. Þannig geta menn enn um sinn gamnað sér við að rífast um
tölulegan samanburð á bílafjölda eða öðrum atriðum og rekið baráttuna
fyrir samgöngubótum þannig, en slíkt er til lengdar tilgangslítil
tímasóun. Ég vona að hvorki nú né aðrir misvirði við mig að ég bendi á
líkast til þarf fjölmiðlavænn og þjóðkunnur einstaklingur að
stórslasast ef ekki láta lífið, þannig að farið verði að hreyfa við
Hellisheiðarmálum. Það styð ég með eftirfarandi
dæmum:

* Málefni fatlaðra komust fyrst á dagskrá þegar Magnús Kjartansson, þá
heilbrigðisráðherra í vinstri stjórninni frá 1971 til 1974, veiktist
og lenti í hjólastól.

* Fáeinum mánuðum eftir að Sigurjón Pétursson fyrrverandi
borgarfulltrúi lést í umferðarslysi við einbreiða brú á Norðurá uppi
undir Holtavörðuheiði var brúin breikkuð og hræðilegri slysagildru
útrýmt. Var þó fyrir löngu fyrr vitað að þessi brú og svo margar aðrar
væru stórhættulegar.

* Menn tóku kipp og gerðu sér ljóst að lausaganga búfjár væri
stórhættuleg þegar Egill Jónsson á Seljavöllum keyrði á hross austur
undir Hornafirði og stórskemmdi bíl sinn.

* Vakning hefur orðið á síðustu misserum varðandi hjartasjúkdóma,
meðal annars vegna framgöngu sr. Hjálmars Jónssonar og Eggerts
Skúlasonar fréttamanns sem hafa báðir vakið athygli á málefnum þessa
hóps í kjölfar veikinda sinna.

* Talsverð umræða skapaðist um slysahættu, mikilvægi góðs
farsímakerfis og vegriða, að ökumenn séu bærilega búnir, noti bílbelti og svo
framvegis eftir að Steingrímur J. Sigfússon bylti bíl sínum norður í
Langadal á dögunum. Kappinn lenti á sjúkrahúsi, þar sem hann ræddi við
þjóðina um slysið í beinni sjónvarpsútsendingu og varð það mál
sjálfsagt til að raska ró æði margra.

* Dæmin gætu verið fleiri.

Eru staðreyndirnar ekki kýrskýrar? Við þurfum sem sagt að bíða eftir
„harmleik á Heiðinni" svo þjóðin uppgötvi hve málefnið er brýnt. Því
miður.

Með kveðju,
Sigurður Bogi Sævarsson blaðamaður.