Ökuhraði á þýsku hraðbrautunum
Sl. föstudag flutti Arthúr Björgvin Bollason ágætan útvarpspistil um þýsku hraðbrautirnar og þær breytingar sem orðið hafa á umferð um þær frá því að fyrsta kynslóð VW Golf kom fram á sjónarsviðið fyrir um 40 árum.
Fyrsta kynslóð VW Golf sem leysti af hólmi VW Bjölluna var miklu nýtískulegri bíll en Bjallan, bæði rúmbetri en líka aflmeiri og hraðskreiðari þótt miðað við nútímabíla láti fólk sér kannski fátt um finnast. Vélaraflið var nefnilega aðeins 70 hestöfl eða helmingi minna en í bílum nútímans sem eru að meðaltali 130 hestöfl. Á
VW Golf 1974. |
hraðbrautunum réði Golfinn vel við 130-140 km ferðahraða og var þannig umtalsvert fljótari í förum en ýmsir algengir smábílar þess tíma, eins og Fiat, Opel Kadett og Citroen 2CV eða bragginn. Bragginn var einungis 24 hestafla og réði tæpast við að halda sér á hinum lögbundna lágmarkshraða hraðbrautanna sem er 70 km á klst, ef einhver mótvindur var að ráði.
Á áttunda áratuginum þótti Þjóðverjum engin sérstök ástæða til þess að setja almenn hámarkshraðamörk á hraðbrautirnar þar sem þær voru beinar og breiðar og akstursstefnur tryggilega aðskildar. Slysatölurnar voru líka þannig að hraðbrautirnar voru sannanlega (og eru enn) öruggustu vegirnir og allar reglur um akstur á brautunum skýrar þannig að það þótti svo sem engin sérstök hætta af því að aka þar talsvert greitt. Flestir bílarnir voru heldur ekki það öflugir að þeir gætu náð miklum hraða. Það voru helst Porsche sportbílarnir, stóru BMW og Mercedes bílarnir sem gátu náð 200 km hraða. En umferðin var yfirleitt ekki það þétt að hætta eða óþægindi yrðu af slíkum akstri.
En nú er öldin önnur: Bílum á hraðbrautunum hefur fjölgað gríðarlega síðan og bílarnir eru almennt miklu aflmeiri og hraðskreiðari. Nú heyrir mikill hraðakstur ekki lengur til undantekninga og þegar umferð er ekki mjög þétt má allt eins búast við að bílum sé ekið á 250 km hraða á ystu framúrakstursreinunum. Við þessar aðstæður mætti vissulega ætla að slysum hafi fjölgað sen svo er þó alls ekki. Árið 1991 létust 1552 í slysum á þýsku hraðbrautunum. Árið 2013 létust hins vegar einungis 428. Vafalaust eru ástæður þessa nokkrar en líklegt má þó telja að öruggari og betur búnir bílar nútímans eigi þar stóran þátt. Þá hafa verið sett staðbundin hraðamörk mjög víða á hraðbrautirnar þar sem aðstæður teljast kalla eftir slíku. Jafnframt er umferðin orðin miklu þéttari vegna þess hve bílunum hefur fjölgað gríðarlega og því hreinlega miklu minna olnbogarými fyrir þá hraðaglöðustu til að þjóna lund sinni.