Ökumannslaus bíll
Áratugir eru síðan menn fóru að leggja á ráðin um ökumannslausa bíla og fjalla um þá, ekki síst í vísindaskáldsögum allskonar. En nú er þetta orðið veruleiki og talað um fjöldaframleiðslu á slíkum farartækjum upp úr árinu 2018. Kaliforníuríki gaf nýlega Google skilyrta akstursheimild fyrir ökumannslausa tilraunabíla en áður höfðu Nevada, Florida og Hawaii veitt svipaðar heimildir.
General Motors kynnti þegar árið 1956 hugmyndarbílinn Firebird II og fáum árum síðar Cadillac Cyclone. Bílarnir áttu að geta komist leiðar sinnar án ökumanns við hjálp radíómerkja frá sendum í vegum og götum. Menn töldu þá að slíkir radíóvegir væru innan seilingar. Það hefur þó ekki gerst að neinu ráði, heldur er búnaður í bílunum sjálfum sem „les“ veginn og vinnur úr merkjum frá gervitunglum. Ýmsir bílaframleiðendur og tölvu- og hugbúnaðarfyrirtæki vinna nú að sjálfstýringum fyrir bíla sem geta stjórnað þeim í umferðinni með hámarks öryggi og jafnvel betur en nokkur ökumaður ræður við. Þá vinnur nú hópur nemenda við Stanford háskólann að sjálfstýribúnaði sem stýrt getur kappakstursbílum í keppni gegn akstursíþróttamönnum á kappakstursbrautum. En segja má að Google hafi náð lengst í þessum efnum með sínum tveimur sjálfstýrðu Toyota Priusum sem nú þegar hafa lagt að baki hálfa milljón kílómetra, ökumannslausir í almennri umferð og algerlega án óhappa.
Talið er að um 90 prósent allra umferðarslysa og óhappa megi rekja til mannlegra mistaka af einhverju tagi. Munurinn á rafeindatækninni og manninum er sá að rafeindatæknin er ekki að lesa smáskilaboð á farsímanum, tala í símann, snæða eða yfirleitt hafa athyglina bundna við annað en aksturinn. En til að sjálfstýrikerfin verði fyllilega örugg þurfa þau að geta „séð“ ýmislegt á veginum þótt það hafi ekki verið forritað inn í GPS gervitunglin, atriði eins og vegavinnu og hjáleiðir og slíkt. Bílarnir verða með öðrum orðum að geta bæði tekið á móti GPS merkjum og unnið úr þeim en líka sent frá sér upplýsingar í GPS kerfin áður en þeir geta talist nægilega öruggir. Þá þarf það að vera klárt áður en svona sjálfstýringar verða almennar, en það er sú lögfræðilega og pólitíska spurning, hver það er sem ábyrgðina ber, ef slys verður og enginn ökumaður við stýrið?