Ökumannslausir bílar
Tilraunabíll frá Bosch er um þessar mundir á fleygiferð á þýskum hraðbrautum. Það sérstæða við ferðir bílsins er að enginn ökumaður ekur honum. Bíllinn er forritaður til þess að fara milli tiltekinna staða og tölvubúnaður sér um að „keyra“ hann eins og besti ökumaður og kannski betur.
Markmiðið með þessum tilraunum er að flýta þróun sjálfstýrðra bíla og með því að prófa bílana í almennri umferð fæst betri vitneskja um hvort og hvernig búnaður þessi virkar og hvað mætti betur fara.
Það gefur auðvitað auga leið að ökumannslaus bíll fær ekki leyfi til aksturs í almennri umferð nema að tryggt sé að engin sérstök eða aukin slysahætta fylgi tilraunum af þessu tagi. Þýska skoðunar- og vottunarfyrirtækið TÜV Süd var fengið til að taka út sjálfstýribúnaðinn og öryggisþætti hans og taldi hann það góðan að ekkert mælti gegn því að leyfa akstur Bosch-bílsins í almennri umferð. Öruggt væri að hann ætti ekki eftir að valda slysi eða slysum.
Rúmlega 5 þúsund verkfræðingar hjá Bosch hafa komið að þessu verkefni með mismunandi hætti. Markmiðið er að þróa enn betri öryggis- og hjálparkerfi fyrir bíla en þau eru grunnur að sjálfvirkum akstri. Öryggis- og hjálparkerfin eru síðan tengd stjórntölvu/-tölvum bílsins svo að úr verður eitt kerfi sem m.a. er fært um að keyra bílinn í almennri umferð.
Tilraunaakstur á þýsku hraðbrautum er fyrsta stigið í þróun sjálfstýrikerfis sem tekist getur á við allar akstursaðstæður. Þótt hratt sé stundum ekið á þýsku hraðbrautunum eru þær þó með allra öruggustu vegum. Það er m.a. vegna þess að akstursstefnur eru aðskildar, engir vegir þvera hraðbrautirnar og ekkert fólk er á gangi meðfram þeim eða á þeim. Á hraðbrautunum gefst því gott færi á að einbeita sér að prófunum á búnaði sem les veglínur og kantlínur, metur fjarlægðir farartækja og fastra hluta og lagar aksturinn að því sem framundan bílnum er og í kring um hann. Síðar er ætlunin að bæta inn í kerfið nauðsynlegum viðbótum fyrir öruggan sjálfstýrðan akstur á hefðbundnum vegum og götum í þéttbýli