Ökumenn fari varlega á Kjalarnesi
Vegagerðin vinnur að fyrsta áfanga í breikkun Hringvegar (1) um Kjalarnes milli Varmhóla og Vallár. Verkið gengur vel og að jafnaði eru þrjátu starfsmenn við vinnu í mikilli nálægð við þunga umferð. Stór ökutæki þurfa að þvera Hringveginn vegna framkvæmdanna sem skapar hættu bæði fyrir starfsmenn og aðra vegfarendur.
Mikil áhersla er lögð á öryggi og er umferðarhraði tekinn niður. Ökumenn eru beðnir um að fara með gát þegar ekið er í gegnum vinnusvæðið. Fyrsti áfangi verksins gengur út á breikkun á 4,1 km löngum kafla Hringvegar frá Varmhólum að Vallá. Breikka á núverandi tveggja akreina veg í 2+1 veg með aðskildum akbrautum.
Í verkinu eru hringtorg, tvenn undirgöng úr stálplötum, áningarstaður, hliðarvegir og stígar. Fergja á vegstæði og framtíðarstæði stíga meðfram hliðarvegum.
Framkvæmdir hófust í september í fyrra og mun ljúka vorið 2023. Seinni áfangi verksins verður boðinn út síðar í ár og mun verkinu í heild ljúka vorið 2024.