Ökumenn fóru yfir á rauðu á öðru hverju ljósi að jafnaði
Samkvæmt niðurstöðu könnunnar sem VÍS vann á tveimur fjölförnum gatnamótum í borginni á dögunum kemur í ljós að allt of margir virða ekki umferðarreglur og aka yfir á rauðu ljósi.
Könnunin var gerð á annatíma, að morgni og síðdegis og sýndi að farið var yfir á rauðu á öðru hverju ljósi að jafnaði.
Kannanirnar voru gerðar við gatnamót Fjallkonuvegs og Gullinbrúar í Grafarvogi og á gatnamótum Grensásvegar og Miklubrautar. Í annað hvert skipti sem rautt ljós kom í Grafarvogi ók einhver yfir á rauðu, samtals 17 ökumenn.
Hlutfallið var aðeins betra á gatnamótum Grensásvegar og Miklubrautar eða 45%. Þar voru 53 ökutæki sem fóru yfir á rauðu þann tíma sem fylgst var með umferðinni.
Á síðast ári voru um 100 umferðarslys tilkynnt til VÍS þar sem ökumaður hafði ekið yfir á rauðu. Það er hærra hlutfall en 10 ára meðaltal sýnir sem er um 80 slys á ári. Hraði ökutækja er oft nokkur í þessum slysum, alvarleiki þeirra oft töluverður og sök þess sem fer yfir á rauðu algjör.
Sekt við akstri yfir á rauðu ljósi er kr. 15.000 ásamt tveimur punktum í ökuferilskrá. Ef allir sem fóru yfir á rauðu þann tíma sem kannanirnar voru gerðar hefðu verið sektaðir hefði heildarupphæðin hljómað uppá kr. 1.050.000. Þá upphæð væri hægt að tvöfalda ef tillögur, sem eru til skoðunar hjá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, verða samþykktar en þá verður sekt vegna aksturs gegn rauðu ljósi hækkuð upp í kr. 30.000.-
Síðan væri hægt að margfalda sektarupphæðir ef akstur gegn rauðu ljósi í allar áttir á ljósunum væru myndaður yfir allan sólahringinn. Ef svo væri má búast við að það hefði mikið forvarnagildi þar sem ökumenn myndu líklega ekki leika sér að því að safna upp sektum.