Sektir vegna nagladekkja flestar á höfuðborgarsvæðinu
Ökumenn hafa verið sektaðir í 346 tilvikum vegna ólöglegrar notkunar nagladekkja. Það er á fimm ára tímabili, frá ársbyrjun 2018 til 6. nóvember á yfirstandandi ári. Óheimilt er að nota nagladekk á tímabilinu 15. apríl til 31. október nema þess sé þörf vegna akstursaðstæðna.
Þessar upplýsingar koma fram í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni alþingismanni á Alþingi. Flestar sektir hafa verið gefnar út á yfirstandandi ári á þessu tímabili eða alls 116 samanborið við 46 í fyrra, 40 á árinu 2020 og 91 sekt sem var gefin út á árinu 2019.
Reglugerðin á stoð í 2. mgr. 69. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, en þar kemur fram að eigandi (umráðamaður) beri ábyrgð á að ökutæki sé í lögmæltu ástandi og í samræmi við reglur sem ráðherra setur, sbr. 1. og 4. mgr. 69. gr. laganna. Brot gegn 69. gr. umferðarlaga varðar sektum skv. 1. mgr. 94. gr. sömu laga. Á grundvelli framangreindrar refsiheimildar hefur lögregla sektað eigendur og umráðamenn ökutækja ef keðjur eða negldir hjólbarðar eru notaðir á tímabilinu frá og með 15. apríl til og með 31. október nema akstursaðstæður krefjist þess að slíkur búnaður sé notaður. Ef t.d. snjór eða ísing er á vegi eftir 15. apríl þá er ekki heimilt að sekta fyrir brot gegn framangreindri reglugerð eins og ákvæði 6. mgr. 16. gr. reglugerðarinnar ber með sér. Þegar hlýnar eftir þetta tímamark og ísing og snjór hverfur af vegum hefur til að mynda lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu látið almenning vita í gegnum samfélagsmiðla embættisins að aðstæður séu nú með þeim hætti að sektarheimildum verði beitt ef keðjur eða negldir hjólbarðar verði notaðir, enda refsiskilyrði uppfyllt.
Flestar sektir eða 227 hafa verið lagðar á bíleigendur hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu á tímabilinu 2018-2022, næstflestar eða 40 hjá lögreglunni á Suðurlandi og 30 á Suðurnesjum. Fæstar sektirvoru gefnar út af embætti lögreglustjórans á Norðurlandi vestra á öllu tímabilinu, sex sektir á Norðurlandi eystra og sjö í Vestmannaeyjum. Fram kemur að engin sekt var gefin út í lögregluumdæmum fyrstu tvær vikur eftir að bann við notkun nagladekkja tók gildi og síðustu tvær vikur áður en bannið rann út.