Ökumenn nota í auknu mæli handfrjálsan búnað undir stýri
Samkvæmt könnun MMR hafa 47% Íslendinga talað í farsíma undir stýri án handfrjáls búnaðar á síðastliðnum tólf mánuðum. Ökumönnum sem tala í farasíma án handfrjáls búnaðar fer fækkandi en um er ræða 9% fækkun frá sömu könnun sem gerð var fyrir tólf mánuðum síðan.
Þá leiddi könnun MMR í ljós að fjöldi þeirra sem tala í farsímann með handfrjálsum búnaði hefur aukist og stendur í 44%.
Ef litið er á þróun yfir tíma má sjá að þeim sem tala í símann undir stýri án handfrjáls búnaðar hefur fækkað stöðugt frá árinu 2010. Þannig kváðust 47% svarenda tala í símann án handfrjáls búnaðar í síðustu könnun MMR en 71% árið 2010.
Á móti hefur fjöldi þeirra sem tala í símann undir stýri með handfrjálsum búnaði aukist úr 24% árið 2010 í 44% árið 2017. Eins hefur fjölda þeirra sem ekki hafa notað farsíma undir stýri síðastliðna 12 mánuði aukist um 6 prósentustig, úr 17% árið 2010 í 23% árið 2017.
Þegar niðurstöður voru skoðaðar eftir búsetu kom í ljós að fólk sem búsett var á landsbyggðinni (50%) reyndist líklegra en fólk sem búsett var á höfuðborgarsvæðinu (44%) til að tala í símann undir stýri án handfrjáls búnaðar.
Fólk búsett á höfuðborgarsvæðinu var aftur á móti líklegra (48%) heldur en fólk búsett á landsbyggðinni (36%) til að tala í símann undir stýri með handfrjálsum búnaði samkvæmt könnun MMR.