Ökumenn ofmeta sig

Evrópskir ökumenn kunna ekki vel skyndihjálp og rétt viðbrögð á slysstað. Ný og umfangsmikil rannsókn sem fram fór í 14 Evrópulöndum leiðir þetta í ljós. Systurfélög FÍB  í flestum þessara landa hafa lýst áhyggjum vegna þessara niðurstaðna. Það var EuroTest – rannsókna- og prófunarstofnun evrópsku bifreiðaeigendafélaganna sem gerði rannsóknina í samvinnu við Alþjóða Rauða krossinn.

En þótt kunnáttunni sé áfátt skortir lítið á sjálfstraustið hjá mörgum ökumönnum. Þeir telja sig í flestum tilfellum fullfæra um að bregðast rétt við og veita nauðsynlega og rétta fyrstuhjálp, komi þeir að slysstað. Svör þeirra við spurningum um rétt viðbrögð á slysstað leiða bara allt annað og verra í ljós.

Í öllum þeim ríkjum sem rannsóknin náði til, verða ökunemar nú að standast próf í skyndihjólp til að geta öðlast ökuréttindi. Allir þeir sem spurðir voru höfðu þannig sótt skyndihjálparnámskeið og nokkur hluti hafði endurtekið slíkt námskeið eftir að hafa fengið ökuréttindi. Sjálfstraustið reyndist mest hjá finnskum ökumönnum en rúmlega átta af hverjum tíu töldu sig færan í flestan sjó. Prófið sem lagt var fyrir þá sýndi hins vegar annað og verra ástand. Einungis 26,4% þeirra stóðust prófið og höfðu næga kunnáttu til að gera hið rétta á slysstað.

Að meðaltali hafa einungis 17,8 prósent ökumanna í Evrópu næga kunnáttu til að bregðast rétt við á slysstað og veita fyrstu hjálp. 65,8 prósent hins vegar telja sig hafa hana þótt þeir hafi hana jafnvel alls ekki. Raunveruleg kunnátta Ítala í fyrstu hjálp er sú minnsta í samanburðarlöndunum. Einungis 2,5% hafa næga kunnáttu en 62,3% telja sig hafa hana.

Þýskir ökumenn hafa bestu raunkunnáttuna í fyrstu hjálp eða 32,5%.

Góð kunnátta og færni í því að veita fyrstu hjálp er mjög mikilvæg, enda getur rétt veitt fyrsta hjálp á slysstað skilið milli lífs og dauða. Sjálfsagt er því að hvetja alla ökumenn til að sækja skyndihjálparnámskeið reglulega tl að rifja upp kunnáttuna og afla sér nýrrar þekkingar og þjálfa með sér rétt viðbrögð í neyðartilfellum.

http://www.fib.is/myndir/EuroTest-First-aid.jpg