Okur álagning á eldsneyti í júlí
Júlí er aðal orlofsmánuður Íslendinga enda hásumar. Langferðalög um eyjuna fögru eru gjarnan hluti af sumarleyfi fjölskyldna og hátt eldsneytisverð hefur neikvæð áhrif á heimilisbókhaldið. Því miður virðast fákeppnisbarónarnir á íslenska olíumarkaðnum telja eðlilegt að skila ekki verðlækkunum á heimsmarkaði til neytenda enda hafa þeir aukið álagningu sína á hvern bensínlítra milli mánaða um 40%. Álagningarokur ofan á óvenju hátt heimsmarkaðsverð eykur einnig tekjur af erlendum ferðamönnum enda vegir landsins þétt skipaðir ökutækjum erlendra gesta. Það er ljóst að þessi mikla umferð skapar freistingu hjá þeim sem óttast ekki samkeppni um viðskipti enda eru öll olíufélögin að taka þátt í okrinu.
Eldsneytisverð vegur þungt í vísitölu neysluverðs með tilheyrandi áhrifum á verðbólgu. Há álagning og hátt bensínverð kemur ekki bara illa við budduna við dæluna. Aukin verðbólga dregur úr verðgildi peninga og eykur vexti og kostnað vegna verðtryggingar lána.
Þetta vekur upp siðferðislegar spurningar um verðlagningu á fákeppnismarkaði með nauðsynjavörur eins og bensín og dísilolíu. Í Belgíu gildir t.d. fast hámarksverð fyrir hverja olíuvöru. Þar er óheimilt að selja eldsneyti yfir hámarksverðinu en olíusölufyrirtækin keppast um viðskiptavini með lægri verðum enda ekkert sem bannar það. Hámarksverðið er reiknað í samvinnu við samtök belgískra olíufyrirtækja og tekur mið af heimsmarkaðsverði og sköttum á hverjum tíma. Markmiðið er að tryggja framboð, takmarka sveiflur og óeðlilega verðlagningu á olíuvörum í Belgíu. Þurfa íslensku olíufélögin aftur að fá yfir sig verðlagsstofnun? Heilbrigð samkeppni þjónar hagsmunum allra á markaði en fákeppni er aðför að neytendum.
Allar vísitölur á erlendum mörkuðum hafa farið niður á meðan eldsneytisverðið hér heima hreyfist lítið. Það er sjálfsögð krafa að olíufélögin skili lækkun á heimsmarkaði til neytenda strax. Meðfylgjandi verðsamanburður á þróun eldsneytisverðs í Danmörku og hér á landi annars vegar og tengingin við verðþróun Brent olíufatsins frá 1. Júní til 19. júlí sýnir glögglega að íslenskir neytendur líða illilega fyrir fákeppnina og ofurálagningu íslensku olíufélaganna á aðal ferðatíma landsmanna.
Hvað segja stærstu eigendur olíufélaganna þ.e. lífeyrissjóðirnir um þessa grófu hækkun álagningar í helsta sumarleyfismánuði sjóðfélaga?
Grafið sýnir verðþróun á bensíni og dísilolíu á Íslandi og í Danmörku frá 1. júní til 19. júlí 2022. Dönsku verðin hafa verið uppreiknuð með viðmiðunagengi dönsku krónunnar hjá Seðlabanka Íslands. Verðin koma fram á vinstri ás grafsins í íslenskum krónum (ISK). Súlurnar eru dagsverðin yfir sama tíma á Brent olíufatinu í Bandaríkjadölum (USD). Verðin í USD koma fram á hægri ás grafsins. Á grafinu má einnig sjá stefnulínur (linear) fyrir verðþróun á bensíni á Íslandi, í Danmörku og verðþróunina á Brent hráolíufatinu.