Ökuribbaldar garga á ökumenn líkbíla og sýna þeim upprétta löngutöng
Ökumenn líkbíla í Danmörku kvarta undan vaxandi virðingarleysi annarra ökumanna við líkfylgdir og segja að algengt sé að ökumenn svíni á líkbílum í líkfylgd, ryðjist framúr, öskri og skammist og sýni sér upprétta löngutöng. Ruddunum finnist sem líkfylgdirnar fari of hægt í umferðinni og tefji sig og tjá þessa skoðun sína með „viðeigandi“ hætti.
Dagblaðið Jyllands Posten greindi frá þessu nýlega og ræddi við Torben Elhøj frá sambandi danskra útfararstofa. Hann segir að virðing fyrir líkfylgdum hafi mjög minnkað síðustu árin og sé nánast horfin. „Í Kaupmannahöfn er ekki lengur mögulegt að aka fjórum til fimm bílum í óslitinni líkfylgd á eftir líkbílnum. Virðingarleysið gagnvart hinum látnu er orðið hrollvekjandi,“ segir Elhøj.