Ökutækjasala hjá BMW Group eykst fyrstu mánuði ársins
Sala nýrra bíla hjá framleiðendum BMW Group hefur aldrei verið meiri en um þessar mundir. Í febrúar voru samtals 169.073 bílar frá BMW, Mini og Rolls-Royce nýskráðir á mörkuðum heimsins, 3,1% fleiri en í sama mánuði í fyrra. Þar af seldi BMW 147.789 bíla. Þá jókst sala á nýjum Mini í febrúar um 3,2% þegar alls voru nýskráðir 21.045 bílar.
Sé litið til tveggja fyrstu mánaða ársins jókst ökutækjasala BMW Group um tæp 5% þegar alls voru seldir 332.369 bílar á tímabilinu, þar af rúmlega tvöfalt fleiri BMW rafknúnir bílar heldur en fyrstu tvo mánuðina 2016.
Búist er við því að sala á tengitvinnbílum (plug-in hybrid) og hreinna rafmagnsbíla BMW Group aukist enn frekar frá því sem nú er, en hún var tvöfalt meiri á fyrstu tveimur mánuðum þessa árs miðað við sama tímabil 2016.
Á þessu ári býst fyrirtækið við að salan aukist enn frekar í kjölfar kynningar á BMW 530e iPerformance sem kynntur verður síðar í þessum mánuði á helstu mörkuðum Evrópu. Hér á landi er hans að vænta í sýningarsalinn hjá BL þegar BMW kynnir hann í xDrive-útfærslu sem búist er við að verði næsta haust eða í byrjun vetrar.