Ökutækninámskeið hjá FDM í Danmörku
08.02.2008
Að sækja námskeið í aksturstækni er trúlega besta aðferðin sem býðst til að undirbúa sig undir aðstæður og atvik sem óskandi er að aldrei komi upp. Á Íslandi hefur aldrei verið og er ekki ennþá hægt að sækja slík námskeið þar sem engin aðstaða fyrirfinnst í landinu fyrir slíkt. Þeir sem eru félagar í FÍB eiga þess þó kost að sækja slík námskeið hjá systurfélagi FÍB í Danmörku; FDM.
FDM á og rekur tvö stór akstursæfinga- og keppnissvæði, annað við Roskilde á Sjálandi og hitt við Silkeborg á Jótlandi. Umfangsmikil kennsla og námskeiðahald fer fram á báðum svæðunum og í dag kynnti FDM nýtt aksturstækninámskeið sem eingöngu er fyrir konur.
„Reynsla okkar er sú að konur eru góðir ökumenn og við sjáum oft miklar framfarir hjá þeim í því að stjórna bílnum þegar hann skrensar í hálku eða í neyðarhemlun. Námskeiðið gefur þátttakendum betri tilfinningu fyrir bílnum og konurnar fara frá okkur sem miklu betri ökumenn en þær voru áður,“ segir Henning Pedersen deildarstjóri og yfirmaður aksturssvæða FDM.
Á kvennanámskeiði FDM er bæði bókleg og verkleg kennsla og er námsefnið hið sama fyrir bæði kynin. Í verklegu kennslunni er m.a. tekist á við akstur í hálku, nauðhemlun og stýringu framhjá hindrunum. Þá fá nemendur að kynnast viðbrögðum bílsins með læsivörðum ABS-hemlum og án, með ESC stöðugleikabúnaði og án og á vetrarhjólbörðum annarsvegar og sumarhjólbörðum hinsvegar.
Farið er rækilega í öryggisbúnað bílsins, hemlunarvegalengdir miðað við mismunandi aðstæður og mismunandi hraða og í nýjustu umferðarlög og reglur og loks læra nemendur að leggja í stæði sem margir hafa ekki gott lag á. Ákveðið var að halda sérstök kvennanámskeið í ökutækni og –leikni eftir að eindregnar óskir höfðu komið frá mörgum konum sem tekið höfðu þátt í námskeiðum FDM og viljað verða betri ökumenn, en töldu að þær hefðu fengið meira út úr námskeiði með konum eingöngu þar sem karlarnir hópuðu sig meir saman og sýndu jafnvel af sér hegðun sem konur geta túlkað sem yfirlæti.
Henning Petersen segir að konur sem sótt hafa ökutækninámskeið FDM hafi bent stjórnendum námskeiðanna á að þær hefðu fremur viljað sækja námskeið með vinkonum sínum og samstarfskonum. Þær hefðu þá getað talað betur saman opinskátt, borið sig saman, hlegið saman og lært hver af annarri. Aðrar sem ekki höfðu sótt námskeið sögðust heldur vilja sækja námskeið með öðrum konum sem þær þekktu, fremur en blönduð námskeið með báðum kynjum. Þær vildu finna sig öruggar þegar þær færu að reyna á sig og bílinn og vildu ekki verða öðrum nemum til trafala.
Á ökutækninámskeiði fá nemendurnir mjög raunhæfa mynd af því hvernig bíllinn hegðar sér í neyðartilfellum. Af þeim sökum er mælt með því að nemendur noti eigin bíl á námskeiðinu og kynnist honum, aksturseiginleikum hans og öryggisbúnaði út í hörgul.
Ökutækninámskeið FDM tekur einn dag og kostar um 14.400 ísl. kr. Þátttakendur verða að framvísa fullgildu ökuskírteini. Þeir sem ekki eru með eigin bíl geta leigt hann á staðnum fyrir 8.400 ísl. kr. fyrir námskeiðsdaginn. Félögum í FÍB stendur til boða að sækja ökutækninámskeið FDM. Nánari upplýsingar er að finna á www.fdm.dk/koereteknik eða hjá FÍB. Fyrirspurnir má senda á netfangið stefan@fib.is.