Ólafur Kr. dæmir í Ástralíuformúlunni
Ólafur Kr. Guðmundsson á Monza á Ítalíu.
Nýtt keppnistímabil í Formúlu 1 er framundan og fyrsta keppni tímabilsins verður í Melbourne í Ástralíu 26.-29. mars nk. Ólafur Kr. Guðmundsson varaformaður FÍB og stjórnarmaður í Landssambandi íslenskra akstursíþróttafélaga verður dómari í keppninni. Talsvert mun reyna á dómarana því að í þessarifyrstu lotu ársins verður í fyrsta sinn keppt eftir nýjum og breyttum reglum.
Meðal þess sem nýtt er í Formúlunni er að í sjálfum bílunum verður nú svonefndur KERS-búnaður. KERS er skammstöfun fyrir Kinetic Energy Recovery System, eða kerfi sem endurheimtir hreyfiorku. KERS er í raun þróunarverkefni til að leita eftir eldsneytissparnaði. Í því felst það að hemlunarorka er endurnýtt í bílunum og notuð síðar eftir vissum reglum t.d. til framúraksturs eða til þess að auka fljótt hraðann út úr beygju. Formúlubílarnir í ár verða því einskonar tvinnbílar. Hemlunarorkunni verður safnað upp ýmist sem raforku í rafgeymum eða í kasthjóli eða í vökvakerfi. Ökumenn geta síðan gripið til þessarar uppsöfnuðu orku eftir ákveðnum reglum við t.d. framúrakstur sem fyrr segir, en hún jafngildir um 80 viðbótarhestöflum. Hér er hægt að lesa viðtal við Max Mosley forseta FIA um KERS tæknina.
Með KERS tæknibúnaðinum eru bílarnir breyttir að ýmsu leyti. Vængjunum að bæði framan og aftan hefur verið breytt, afturvængirnir hafa verið minnkaðir til muna en framvængir stækkaðir. Minni afturvængir eru m.a. til að framúrakstur verði auðveldari. Þá verða rennislétt dekk aftur lögleg en þau voru aflögð í Formúlu 1 fyrir um áratug. Sléttu dekkin eru til þess að nota þegar brautin er þurr. Slétt dekk veita betra grip á þurru en eru óhæf í bleytu eins og geta má nærri.
Af öðrum breytingum á keppnisreglum má nefna ný ákvæði um breytt fyrirkomulag á því hvernig öryggisbíll er notaður í keppninni. Þá eru einnig ákvæði um breytt fyrirkomulag dómgæslu.
Ástralía er fyrri Formúlukeppnin af tveimur sem Ólafur dæmir á þessu ári. Hin keppnin sem hann dæmir verður á Monzabrautinni við Mílanó á Ítalíu í september. Samtals hefur Ólafur dæmt 30 keppnisviðburði fyrir FIA; í Ralli, Grand Touring, Formúlu 3000, GP2 og Formúlu 1 frá 1993. Fyrsta F1 keppnin sem hann dæmdi var á Monza 2001.
Frá vinstri: Jaques Tropenat, ökumaður og læknir, Gary Hartstein, viðbragðslæknir F1 og Bernt Meylander, ökumaður öryggisbílsins (Safety-car driver).
Gert klárt í öryggisprófunarferð í læknabílnum.