Olía unnin úr klóaki og öðrum lífrænum úrgangi

http://www.fib.is/myndir/Karsten-Felsvang.jpg
Karsten Felsvang forstjóri SCF Technologies.

Aðalfrétt gærdagsins í dönskum fjölmiðlum var um danskt tæknifyrirtæki; SCF.  Framkvæmdastjóri þess, verkfræðingurinn Karsten Felsvang sagði í fréttaskýringarþættinum Deadline í danska ríkissjónvarpinu í gærkvöldi að fyrirtækið hefði náð tökum á því að búa til hráolíu úr hverskonar lífrænum úrgangi, þar á meðal klóaki. Hráolían fer síðan í olíuhreinsunarstöðvar þar sem hún er unnin á sama hátt og venjuleg jarðolía.

Fyrirtækið hefur einkaleyfi á tækni sem kallast CatLiq. Í henni felst það að úrgangurinn er settur undir mikinn þrýsting og hita. Efnahvörf verða og úr úrganginum kemur olía og fleiri efni. Karsten Felsvang sagði í þættinum að þetta væru sömu efnabreytingar og efnahvörf og hafa orðið í náttúrunni sjálfri á milljónum ára þegar olíubirgðir heimsins urðu til undir þrýsting jarðlaga. Eini munurinn væri sá að það sem tók náttúruna milljónir ára gerist í verksmiðju á fáeinum mínútum.

Eins og alþekkt er orðið er hægt með sáralítilli aukafyrirhöfn að aka dísilbílum á venjulegri matarolíu sem unnin er úr plöntum eins og repju, maís, sólblómafræjum o.fl. Það kallast fyrstu kynslóðar vinnsla lífrænnar olíu. Margir telja að slík fyrstu kynslóðar vinnsla sé óskynsamleg því að  verið sé að rækta matvöru fyrir bíla í stað þess að rækta matvöru fyrir fólk.

CatLiq telst hins vegar annarrar kynslóðar vinnsla þar sem olían er unnin úr lítt eða ekki vinnanlegum úrgangi sem ýmist er brenndur eða honum hent.
Kosturinn við að vinna verðmæti eins og olíu úr klóaki er m.a. sá að allskyns skaðleg efni eru í klóakinu sem við olíuvinnsluna skiljast frá og berast því ekki út í umhverfið. Þetta eru efni eins og klór og brennisteinn.
http://www.fib.is/myndir/Kloakolia2.jpg
Tæknifyrirtækið SCF hefur undanfarin ár þróað CatLiq vinnslutæknina í Þýskalandi. Forstjórinn sagði í danska sjónvarpinu í gær að hún teldist nú það örugg að tími væri kominn til að hefjast handa með stórframleiðslu á hráolíu úr úrgangi eins og klóaki, hálmi, trjá- og pappírsiðnaðarúrgangi sem hingað til hefur þurft að urða eða brenna með ærnum kostnaði.