Olís hækkar bensínverðið
Olís birti nýjan eldsneytisverðlista á heimasíðu sinni skömmu fyrir hádegi í dag. Á honum kemur fram að bensínið hefur hækkað um kr. 1,90 lítrinn. Þjónustuverðið er nú kr. 129,80 og sjálfsafgreiðsluverð er yfirleitt kr. 124,80.
Þegar þetta er ritað kl. 15.30 hafa hvorki Skeljungur né Atlantsolía tilkynnt hækkanir hjá sér. N1 sem áður var Esso hefur, eins og fram hefur komið, þá stefnu að birta ekki neinar verðupplýsingar á sinni heimasíðu. Í frétt í Fréttablaðinu 5. maí sl. sagði framkvæmdastjóri neytendasviðs fyrirtækisins: …„Þetta er ekki það sem neytandinn vill sjá á heimasíðunni,“ En þar sem Olís og N1 kaupa bílaeldsneytið sameiginlega inn í gegn um Olíudreifingu hf. og í ljósi sögunnar má búast við svipaðri eða sömu breytingu innan skamms.
Þessi hækkun nú er illskiljanleg vegna þess að heimsmarkaðsverð á bensíni er nú mjög svipað og það var þegar síðast var gerð breyting á útsöluverðinu. Og ekki bara það, því að krónan hefur síðan þá styrkst gagnvart dollar og síðast í gær lækkaði kostnaðarverðið á bensíni á heimsmarkaði um heila krónu á hvern lítra.. Hækkunin nú í morgun er því með öllu óskiljanleg og verður forvitnilegt að fylgjast með því hvernig forráðamenn Olís eiga eftir að réttlæta hana.