Olís hækkar verð á eldsneyti um 2 krónur
Olís hækkaði verð á bensíni og dísilolíu um 2 krónur seint í gær. Félagið hefur ekki hækkað verð hjá systufélaginu ÓB. Viðskiptavinur Olís sem kaupir bensin á bílinn sinn hjá Olís Álfheimum og dælir sjálfur borgar 6,60 krónum meira fyrir hvern lítra heldur en viðskiptavinur sama fyrirtækis undir merkjum ÓB í Njarðvík. Hin olíufélögin hafa ekki hækkað eldsneytið.
Breytingar á gengi íslensku krónunnar og á heimsmarkaðsverði olíu hafa verið töluverðar undanfarna daga en það skýrir ekki Olís hækkunina. Olíufélögin hækkuðu verð 4. ágúst sl. þannig að bensínlítrinn með þjónustu fór í 132 krónur á sama tíma og kostnaðarverðið var um 37 krónur á lítra. Núna hækkar Olís verðið í 133 krónur þegar kostnaðarverðið er um 35 krónur á lítra. Hvernig skýrir Olís þetta misræmi?
Líkt og FÍB hefur áður fjallað um hafa íslensku olíufélögin verið að hækka álagningu á bæði bensíni og dísiloliu yfir sumarmánuðina.