Olís, ÓB og Skeljungur lækka aftur

Þau olíufélög sem hækkuðu verð á eldsneyti í dag, þ.e. Olís, ÓB og Skeljungur, hafa öll dregið hækkun sína til baka. Verðið er nú það sama og það var fyrir hækkun.

Á heimasíðu Olís segir í fréttatilkynningu að það sé stefna félagsins að bjóða viðskiptavinum upp á samkeppnishæft verð og góða þjónustu og því lækki félagið verð aftur um 20 kr/ltr. Þar segir einnig að lækkað verð taki eingöngu mið af samkeppnis­ástæðum, en sé allt of lágt sé miðað við heimsmarkaðsverð og gengi.

FÍB vill árétta að álagning nú er alls ekki ósvipuð því sem er víða annars staðar í heiminum. Það er þó ljóst að álagning er minni núna en hún hefur verið undanfarin ár og samkeppni vonandi að aukast. Hér er bensín til að mynda ódýrara en það sem þekkist víða í Norður Evrópu og þar kemur meðal annars það til hvað íslenska krónan hefur hrunið í verði. Ekki má þó gleyma þeirri staðreynd að ef raunkostnaður neytenda í þessum löndum fyrir hvern bensínlítra er borinn saman við þann raunkostnað sem íslenskir neytendur bera þá þurfa Íslendingar að vinna lengri vinnudag til að eiga fyrir bensínlítranum heldur en þessar nágrannaþjóðir sem við erum að bera okkur saman við.

Sjá nánar um verð á bensíni.