Olíu stolið af vörubílum
Um alla Evrópu er það óþægilega algengt að dísilolíu sé stolið af eldsneytistönkum kyrrstæðra vörubíla, flutningabíla og vinnuvéla. Í Svíþjóð hefur þessháttar þjófnuðum fjölgað verulega á árinu miðað við síðasta ár. Í fyrra voru gerðar þar 7300 lögregluskýrslur um dísilolíustuld. Áætlað verðmæti stolnu olíunnar var 47 milljónir sænskra króna eða um 865 milljónir ísl. kr.
Norska fyrirtækið DEFA sem m.a. framleiðir vélarhitara í bifreiðar, hefur brugðist við vandanum og bætt inn í þjófavarnarkerfi fyrir bíla, sem fyrirtækið framleiðir þegar, sérstökum búnaði sem setur viðvörunarkerfið og flautur þess í gang ef reynt er að stela olíunni af tönkum (vöru)bíla og vinnuvéla. Þetta þjófavarnarkerfi, sem einnig er brunavarnarkerfi, nefnist DVS90 og er þannig úr garði gert að það er mjög auðvelt að aðlaga það öllum bílum, stórum sem smáum.
DVS90 kerfið er þannig úr garði gert að það skynjar hvers konar fikt við bílinn og greinir af hvaða tagi það er. Þannig finnur það hvort um er að ræða innbrot í bílinn, tilraun til að gangsetja hann eða að stela eldsneytinu af honum. Það greinir hvort rúða hefur verið brotin, eða hurð eða lúga spennt upp með verkfæri, t.d. kúbeini. Hægt er að bæta við kerfið búnaði sem hringir í farsíma ef fiktað er við bílinn.