Olíufélögin auka álagningu sína
Undanfarið hefur gengi íslensku krónunna skánað lítilega og heimsmarkaðverð á bensíni lækkað um 15%.
En meinið er það að hvorki þessi lækkun né sterkara krónugengi er ekki að skila sér til íslenskra neytenda.
Meðalálagning og flutningur á bensíni nú í mars er um 42 krónur á lítra. Til samanburðar hefur álagning olíufélaganna og flutningskostnaður á árunum 2010, -11 og -12 verið uppreiknað til vísitölu dagsins í dag. Útreikningarnir sýna að á núvirði var álagningin um 34 krónur á lítra árið 2012, 33 krónur á lítra 2011 og 32 krónur á lítra 2010.
Eldsneytiskostnaður heimilanna hefur vaxið langt umfram þróun verðlags á undanförnum árum. Vísitölur launa og kaupmáttar hafa ekki haldið í við verðlag frá hruni. Samanburður á verðþróun milli mánaða frá febrúar 2008 til febrúar 2013 eru sláandi. Útsöluverð á bensíni fór úr 137.60 krónum á lítra í 263.50 krónur sem er hækkun um 125.90 krónur eða 91,5%.
Það er ljóst að olíufélögin geta lækkað bensínið um 10 krónur á lítra bara til að halda í við meðalálagningu síðasta árs. Og hafa skal í huga að það leggst virðisuakaskattur á álagninguna sem hækkar 8 krónur í 10.
Olíufélögin eru þessa dagana að bjóða tímabundin tilboð í auglýsingum og SMS skeytum til fólks. En það skal rækilega áréttað að tímabundið tilboð hjá einu félagi um 7 krónu lækkun í dag til vildarviðskiptavina er hreint ekkert tilboð, heldur einungis nakin auglýsingabrella.
Skilaboðin til olíufélaganna eru einföld: Sýnið samfélagslegan samhug með almenningi og lækkið bensínið strax!
Sjá nánar á grafinu hér að neðan. Ath. að hægri ásinn sýnir verðþróun innkaupsverðs (línuritið í myndinni). Vinstri ásinn sýnir útsöluverðið á Íslandi (Súlurnar í myndinni).