Olíufélögin bæta í álagningu sína í skjóli kreppuskuggans

http://www.fib.is/myndir/Bensinbyssa-fram.jpg

Nú er efnahagskreppa dunin yfir Ísland sem gerir landslýð öllum lífið leitt. Stjórnvöld hafa yfirtekið oltna banka og frelsið í gjaldeyrismálum er fyrir bí í bili að minnsta kosti. Gjaldeyrir er skammtaður og vöruinnflutningur er takmarkaður. Þetta á þó ekki við um olíu þar sem yfirvöld hafa lýst því yfir að engar hömlur skuli vera á gjaldeyrisyfirfærslum til olíukaupa.

Sem betur fer hefur olíuverð á heimsmarkaði snarlækkað frá því í sumar. Þessi lækkun hefur þó ekki skilað sér nema að hluta til íslenskra neytenda. Ástæðurnar eru gengishrun íslensku krónunnar og aukin álagning olíufélaganna á bensín og dísilolíu.

Mörg fyrirtæki hafa verið að koma til móts við neytendur að undanförnu með hlutfallslegri lækkun á vöruverði til þess að draga úr neikvæðum vísitöluáhrifum gengisfalls krónunnar. Þetta á því miður ekki við um olíufélögin.

FÍB gagnrýndi hækkun álagningar á eldsneyti á liðnu sumri og það virtist skila sér í formi lægri álagningar í september. En þetta varð því miður skammgóður vermir því það sem af er október hafa olíufélögin aftur hækkað álagninguna og nýta sér þannig lækkun á heimsmarkaði til þess að auka eigin álagningu.

Olíuinnflutningsfyrirtækin hafa það fram yfir aðra á markaði að þurfa ekki að búa við takmarkanir á gjaldeyri til olíukaupa sem fyrr segir. Fyrir það ættu þau ekki að þakka þjóð sinni með því að láta undir höfuð leggjast að skila lækkun olíuverðs til neytenda sem aftur hækkar vísitölu neysluverðs og kyndir þannig undir verðbólgubálinu. Í ljósi aðstæðna hlýtur það að vera siðferðisleg skylda olíufélaganna að lækka bensín og dísilolíu til neytenda strax. Ekkert fyrirtæki lifir án viðskiptavina og það ríður á að allir leggi sitt lóð á vogarskálarnar.

http://www.fib.is/myndir/Eldsn,jan07-okt08.jpg

Heimsmarkaðsverð á Rotterdammarkaði miðað við daglegt gengi USD gagnvart íslenskri krónu m.v. meðalgengi Seðlabanka Íslands. Allar tölur er uppfærðar með vísitölu neysluverðs til verðlags í október 2008.