Olíufélögin bæta stöðugt við álagningu sína á eldsneyti

http://www.fib.is/myndir/Samrad.jpg

Álagning olíufélaganna á eldsneyti fer stöðugt hækkandi. Síðustu þrjá mánuðina var kostnaður neytenda af álagningu olíufélaganna á bensín að meðaltali kr. 28,02 en sýnu mest var hún þó í nýliðnum september, eða kr. 32,06. FÍB fylgist stöðugt með verði á bensíni og dísilolíu á heimsmarkaði og athuganir félagsins staðfesta enn einu sinni að þetta er raunin. Félögin eru jafnt og þétt að auka hlut sinn í verði bifreiðaeldsneytisins. Þetta sést betur á meðfylgjandi grafi síðast í þessari frétt.

Forsendur útreikninga FÍB eru í stuttu máli þær að miðað er við markaðsverð á eldsneyti á Rotterdammarkaði eins og það er á hverjum tíma samkvæmt upplýsingum Financial Times. Við það bætist flutningskostnaður og álögur íslenska ríkisins, uppreiknað í samræmi við vísitölu neysluverðs. Útreikningarnir nú miðast við vísitölu neysluverðs í septembermánuði sl.

Það skiptir heimilin í landinu – neytendur - miklu hver álagningin er á bifreiðaeldsneyri því að við hverja krónu sem olíufélögin bæta í álgagningu sína leggst 24,5% virðisaukaskattur. Þannig þýðir hver fimmkall sem olíufélögin skammta sér í álagningu það að neytandinn borgar tæpar sex krónur.

Meðaltalskostnaður neytenda vegna álagningar olíufélaganna á bensín var í fyrra að meðatali kr. 23,79 á lítra. Það sem af er árinu 2006 er meðaltalið orðið 25,52 kr. og hefur verið að hækka talsvert ört upp á síðkastið eins og sjá má af fyrrnenfdu meðaltali undanfarinna þriggja mánaða.

Árið 2005 var meðalkostnaður neytenda vegna álagningar olíufélaganna á dísilolíu kr. 19,78 á lítra. Á þessu ári hefur kostnaðurinn hækkað og er það sem af er kr. 20,36. En eins og í bensíninu er álagningarkostnaðurinn í september sl langt yfir meðaltali ársins eða 34,7 prósentum hærri.

Í þessu ljósi er ekki hægt annað en að rifja upp pistil forstjóra Esso, Hermanns Guðmundssonar á heimasíðu Olíufélagsins hf. þann 14. september sl. Þar stóð m.a. þetta:

„Í ljósi góðrar afkomu félagsins og til að styðja við bakið á tugþúsundum viðskiptavina um land allt, hafa stjórnendur félagsins ákveðið að stíga stórt skref í lækkun á bensínverði. Þetta skref er stigið til að þakka viðskiptavinum okkar hina miklu tryggð sem þeir hafa sýnt okkur í gegnum þetta erfiða tímabil óróa á mörkuðum.

Olíufélagið - ESSO mun hér eftir sem hingað til hafa hagsmuni viðskiptavina sinna að leiðarljósi á sama tíma og rekstur félagsins gengur afar vel. Áfram verður kappkostað þjónustu landsmenn alla. Lækkun á bensíni er 4 krónur og á dísel 2 krónur, um land allt.

Þessi mikla lækkun sem framkvæmd er í dag byggir á væntingum Olíufélagins - ESSO um að á næstu vikum verði markaðir tiltölulega stöðugir.“


Það var og….
http://www.fib.is/myndir/Alagning-oliufelaga.jpg