Olíufélögin fara yfir strikið
Olíufélagið Esso hækkaði eldsneytisverð í fyrrakvöld. Bensínið hækkaði um 1,50 krónur á lítra og dísilolían um 1 krónu. Hin gömlu félögin fylgdu í kjölfarið en hækkuðu bensínið heldur minna eða um 1,20 krónur á lítra. Athyglisvert
er að sjá að forsvarsmenn Esso, sem hafa boðið fyrirtækið til sölu,
hafa að undanförnu gengið á undan og hækkað álagningu á bensín til
bíleigenda. Þeir virðast telja það söluhvetjandi varðandi fyrirhugaða sölu á fyrirtækinu að sýna fram á hærri veltutölur. Til lengri tíma fæla svona vinnubrögð neytendur frá fyrirtækinu og draga úr viðskiptum. Getur hugsast að Esso-menn telji þetta ekki sitt vandamál til lengri tíma? Þeirra markmið í augnablikinu er að lokka að fjárfesta með því að sýna góða veltu en mættu muna það að mikilvægasta auðlind hverrar bensínsjoppu eru viðskiptavinirnir.
Nýlega kom fram að Olíufélagið taki ákvarðanir um eldsneytisverð á hverjum mánudegi. Félagið segist miða við meðalverð liðinnar viku og lokagengi Bandaríkjadals gagnvart krónunni í þeirri viku. FÍB hefur tekið saman innkaupsverð á bensíni síðastliðna 2 mánuði miðað við þessar forsendur Esso. En þvert á yfirlýsingar Esso og hinna fyrrum samráðsfyrirtækjanna Olís og Shell, hefur álagning á bensín hækkað verulega síðustu vikurnar. Bæði
er álagningin hærri það sem af er janúar samanborið við desember á
liðnu ári og einnig hækkuðu olíufélögin meðalálagningu sína um 2,50
krónur á síðasta ársfjórðungi 2005 samanborið við álagninguna fyrstu 9
mánuðina það ár. Heimsmarkaðurinn hækkar vissulega en verð til
íslenskra neytenda hækkar meira.
Eftirfarandi tafla sýnir verðþróunina síðustu tvo mánuði. Innkaupsverðið
er reiknað fyrir 5 virka daga í senn miðað við gengi Bandaríkjadals á
föstudegi sem jafnframt er síðasti dagurinn í verðútreikningunum. Til samanburðar er sett inn þjónustuverð á bensínlítra í komandi viku næst á eftir verðútreikningi á heimsmarkaðsverði.