Olíufélögin hækka álagninguna á bensínið
03.01.2006
Í gær hækkaði bensínið hjá Esso, Skeljungi og Olís um kr. 1,50. Í tilkynningum félaganna var þessi verðbreyting skýrð með því að hún væri nauðsynleg vegna hækkunar á heimsmarkaðsverði. En er það skýring sem hægt er að taka góða og gilda?
FÍB fylgist náið með heimsmarkaðsverði á bifreiðaeldsneyti og fær um það upplýsingar víða að. Samkvæmt þeim gögnum sem FÍB hefur tiltæk sést að heimsmarkaðsverðið er um þessar mundir mjög svipað því sem það var í kring um 10. desember 2005. Verð til íslenskra bifreiðaeigenda var hins vegar um og yfir krónu lægra þá en það er nú orðið. Breytingar a heimsmarkaðsverði bensíns hafa ekki verið þvílíkar frá því 10. desember og yfir áramótin að þær réttlæti hækkun útsöluverðs á Íslandi upp á eina og hálfa krónu lítrann.
FÍB hefur skoðað álagningu olíufélaganna á bensíni til íslenskra neytenda allt síðasta ár. Það var ár mikilla sviptinga á olíumarkaði heimsins sem náðu hátindi í sumarlok þegar náttúruhamfarir gengu yfir Mexíkóflóann og eyðilögðu olíuhreinsunarstöðvar og ollu truflunum á olíuvinnslu. Heimsmarkaðsverð á eldsneyti steig mjög í kjölfar hamfaranna og það er greinilegt að olíufélögin nýttu sér lagið og bættu í álagningu sína. Greinilegt er að meðalálagning þeirra síðustu þrjá mánuði ársins 2005 var um 2,78 krónum hærri á hvern bensínlítra heldur en fyrstu níu mánuðina. Allt þetta má sjá nánar af grafinu sem fylgir hér að neðan. Grafið sýnir álagningu á 95 oktan bensín hér á landi bæði þjónustuverð og sjálfsafgreiðsluverð fyrir árið 2005. Þarna má sjá að álagning í sjálfsafgreiðslu hjá olíufélögunum hefur hækkað um yfir 15% á síðasta ársfjórðung liðins árs samanborið við álagninguna fyrstu 9 mánuðina. Þar sem virðisaukaskatturinn bætist við hækkar verðið til neytenda um tæplega 3,50 krónur á hvern lítra. Haldist þessi aukna álagning þá mun íslenskur almenningur greiða á milli 6 og 700 m.kr. aukalega fyrir bensínið á ári vegna hærri álagningar. Er hægt að réttlæta þetta?