Olíufélögin hér á landi fylgja ekki heimsmarkaðsverðinu eftir
Neytendur á Íslandi borga nú um 60 krónum meira fyrir hvern lítra af bensíni en þeir gerðu fyrir ári síðan. Félag íslenskra bifreiðaeigenda hefur vakið athygli á þessu á heimasíðu félagsins og er þar nefnt sem dæmi að N1 hafi selt bensínlítrann á 270,90 krónur í byrjun árs 2022 og í lok árs hafi hann verið kominn yfir 327 krónur. Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, í segir í samtali við Morgunblaðið í dag að síðustu tvo mánuði nýliðins árs hafi álagningin verið í hæstu hæðum hjá olíufyrirtækjunum hérlendis, hvort sem litið sé til þess olíufélags sem bauð lægsta verðið eða einhverra annarra.
Runólfur segir ennfremur að á seinni hluta síðasta árs hafi heimsmarkaðsverð lækkað umtalsvert. Lækkunin hafi hins vegar ekki verið eins mikil á Íslandi á þeim tíma. Ef Costco sé tekið sem dæmi kostaði bensín hjá þeim 230,90 krónur á lítrann í upphafi árs 2022 en fór hæst upp í yfir 318 krónur í sumar. Nú er það komið niður í ríflega 290 krónur.
Markaður þar sem fáir aðilar eru að reka þjónustu
„Því miður er þetta markaður þar sem fáir aðilar eru að reka þjónustu. Eins og Samkeppniseftirlitið hefur bent á hefur hann öll einkenni fákeppnismarkaðar. Þegar verðhækkanir byrjuðu á heimsmarkaði á síðasta ári vegna ástandsinsíÚkraínu þá hækkuðu íslensku olíufyrirtækin verðið hægar til að byrja með miðað við heimsmarkaðinn,“ segir Runólfur.
Eins og áður hefur komið fram í máli Runólfs fylgir danski markaðurinn heimsmarkaði. Þá er það bara gengi bandaríkjadals gagnvart dönsku krónunni sem skiptir máli.
,,Hérlendis eru sömu breytur sem hafa áhrif eða gengi bandaríkjadals gagnvart íslensku krónunni. Ef krónan veikist þá hefur það áhrif á verðmyndun hér en stóri þátturinn er auðvitað heimsmarkaðsverðið,“ segir Runólfur Ólafsson meðal annars í viðtalinu við Morgunblaðið.