Olíufélögin skulda lækkun á eldsneytisverði
FÍB hefur ítrekað gagnrýnt óeðlilega hátt bensín- og dísilolíuverð hér á landi. Hráolíuverð á mörkuðum hefur lækkað um næstum 30% á tveimur mánuðum. Á sama tíma hefur bensínverð á Íslandi farið niður um 4,2% og dísilverð um 4,7%. Til samanburðar hefur bensín í Danmörku lækkað um 18,4% og dísilolía um 16,8%. Bensínverð á Íslandi og í Danmörku var svipað í báðum löndum snemma í júní. Núna er verðmunurinn á milli landanna yfir 55 krónur á hvern lítra af bensíni.
Eldsneyti ber háa skatta á Íslandi og ekki minni skatta í Danmörku. Hlutfallsleg lækkun nær ekki til krónutöluskatta bæði hér heima og í Danmörku. Þennan mikla mun á verðlækkun milli landa er engan vegin hægt að réttlæta.
Minni framlegð?
Forstjóri Skeljungs var í viðtali í fréttum RÚV þann 8. ágúst sl. og sagði þar m.a. að olíufélögin hafi haldið aftur af verðhækkunum. Rökin voru þau að framlegðin af hverjum seldum lítra væri lægri um þessar mundir en hún var fyrir Covid-19. Það er athyglisvert að forstjóri Skeljungs talar fyrir hönd allra olíufélaganna sem eiga að heita að vera í samkeppni. Síðan er það framlegðin sem getur ekki verið hlutfallstala í eðlilegri samkeppni þegar um er að ræða vöru sem tekur miklum verðsveiflum og er mjög hátt skattlögð.
Bensínverð var 100 krónum lægra á lítra sumarið 2019 samanborið við sumarið í ár. Þarna talar nýr og ferskur forstjóri sem virðist telja að samkeppnisskortur á íslenskum eldsneytismarkaði sé lögmál.
Kynda verðbólgubálið
Eldsneytisverð vigtar þungt í vísitölu neysluverðs og þar með á verðbólgu. Olíufélögin hafa mikil áhrif á afkomu heimila og fyrirtækja langt umfram lítraverðið. Lækkun olíuverðs temprar verðbólgu en hátt verð kyndir verðbólgubálið.
Er komið að því að setja álagningarþak á eldsneytisverð hér á landi þar sem markaðnum er ekki treystandi til að skila verðlækkunum til neytenda?
Sláandi munur á verðþróun
Það er sláandi að bera saman verðþróunina á eldsneyti í Danmörku og á Brent hráolíutunnunni annars vegar og hins vegar þróun verðlagningar á eldsneyti hér heima. Línuritið með fréttinni sýnir tölulegan samanburð á eldsn sem nær frá 1. júní til 9. ágúst 2022.