Framkvæmdum á Reykjanesbraut verði flýtt eins og kostur er
Stopp – hingað og ekki lengra er nafn hóps sem berst fyrir umbótum á Reykjanesbraut. Hópurinn var stofnaður fyrir nokkrum árum og hefur það að meginmarkmiði að bæta umferðaröryggi á þessum fjölfarnasta vegi landsins í kjölfar banaslyss á Hafnarafleggjara í júlí 2016.
Einn af forsvarsmönnum hópsins, Guðbergur Reynisson, segir í samtali við FÍB að í Stopp – hingað og ekki lengra hópnum séu í dag um 17 þúsund manns. Hópurinn hefur með baráttu sinni náð að knýja fram ýmsum umbótum sem bætt hafa umferðaröryggi á þessu svæði. Fjögur ár eru frá því að hópurinn var stofnaður, en hlutverk hans hefur verið að þrýsta á stjórnvöld að halda áfram með framkvæmdir við tvöföldun Reykjanesbrautar.
Guðbergur segir að hópnum hafi orðið vel ágengt, tvöföldun á restinni af Reykjanesbraut frá Fitjum uppí Flugstöð Leifs Eiríkssonar komst inn á Samgönguáætlun. Og til þess að auka öryggi vegfarenda þangað til fengum við í gegn tvö hringtorg við vegamót Aðalgötu og Flugvallavegar.
Í vikunni var alvarlegt umferðarslys á Reykjanesbraut þegar karlmaður á fimmtugsaldri lést í hörðum árekstri fólksbíls og snjóruðningstækis á móts við Álverið í Straumsvík. Að mati hópsins er þessi vegakafli, frá Hvassahrauni til Krísuvíkurafleggjara, einn sá hættulegasti á landinu.
Forsvarsmenn hópsins áttu í dag fund með forstjóra Vegagerðarinnar, framkvæmdastjóra tæknisviðs Vegagerðarinnar og sviðsstjóra framkvæmdasviðs Hafnarfjarðar. Að sögn Guðbergs Reynissonar lagði hópurinn þunga áherslu á tvöföldun brautarinnar frá Hvassahrauni til Krísuvíkurafleggjara og framkvæmdum verði flýtt eins og kostur er.
,,Umræddur vegakafli er nú þegar kominn inn á samgönguáætlun. Við fengum að vita að málið væri í vinnslu. Við þrýstum á svör og vildum að farið yrði nú þegar í úrbætur. Öllum aðilum er alveg ljóst að þetta er verkefni sem þarf að leysa eins fljótt og kostur er. Hópurinn lagði til að Vegagerðin færi strax í að aðskilja akstursstefnur og breikka axlir á meðan beðið er eftir tvöföldun. Fjármagn til þess hefði verið lagt til fyrir einu ári síðan af því allt ferlið mun taka minnst 2-3 ár. Það er óábyrgt og galið að hafa brautina óbreytta þann tíma“ sagði Guðbergur í samtali við FÍB.
Guðbergur sagði að hópurinn myndi hitta bæjarráð Hafnarfjarðar að máli á morgun. Á föstudag yrði síðan annar fundur með stjórnvöldum í Hafnarfirði og Vegagerðarinnar.
Undir lok árs 2018 var umrædd breikkun talsvert í umræðunni og fjallað um hana á fib.is. Þar kom fram að stefnt yrði að breikkun vegakaflans miðja vegu milli nýju gatnamótanna við Krýsuvíkurveg og gatnamótanna við Strandgötu á næstu tveimur árum. Erlendur karlmaður lést á þessum gatnamótum í umferðarslysi 28. október 2018.
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur margsinnis krafist úrbóta á Reykjanesbraut og farið fram á við yfirvöld að flýta tvöföldun brautarinnar. Aukning umferðar á þessum kafla kalli á að ráðist verði úrbætur fyrr en gerð sé ráð fyrir í samgönguáætlun. Um 45 þúsund bílar fara um þennan vegakafla á degi hverjum.