Ólöglegar vélabreytingar á kostnað umhverfisins
Undanfarin misseri hafa fyrirtæki hér á landi boðið bíleigendum upp á að endurforrita vélartölvur ökutækja og er sagt að það skili meira afli og minni eldsneytiseyðslu. Samkvæmt heimasíðum og facebook-síðum Bílaforritunar og Kraftkorta, fyrirtækja sem bjóða þessa þjónustu, er m.a. boðið upp
á þann valkost að taka mengunarvarnarbúnað bílaframleiðenda úr sambandi. Þarna er sérstaklega fjallað um EGR-ventla, sótagnasíur og AD-blue hreinsibúnað. Aftenging þessa búnaðar frá framleiðanda eykur losun heilsuspillandi mengandi efna og skaðlegra sótagna frá bílum.
Á heimasíðu Kraftkorta (kraftkort.net) segir m.a.: ,,Til viðbótar við sparnaðar- kraft og mengunarstillingarnar bjóðum við upp á forritun bíla með sótagnasíu, þannig að fjarlægja megi síuna án þess að setja vélatölvuna í uppnám.“ Á heimasíðu Bílaforritunar er eftirfarandi texti: ,,Við ... bjóðum uppá forritun fyrir nokkrar gerðir díselbíla svo hægt sé að fjarlægja sótagnasíuna (dpf) án þess að setja vélartölvu bílsins í uppnám.“ Þar er einnig undirkafli með fyrirsögninni,,Adblue delete“ eða Adblue fjarlægt. Ennfremur er eftirfarandi texti: ,,Bílaforritun.is býður uppá forritun fyrir nokkrar gerðir bíla þar sem hægt er að óvirkja EGR ventil bílsins án þess að setja vélartölvu bílsins í uppnám.“ Bilaforritun er með eftirfarandi ábendingu undir umfjölluninni um EGR og sótagnasíurnar: ,,,Ath‘ að fjarlæging á mengunarbúnaði er háð lögum og reglum í hverju landi fyrir sig. Á Íslandi og víða í Evrópu er ólöglegt er fjarlægja mengunarbúnað úr ökutækjum með götuskráningu.“
Óháð öllum ábendingum til viðskiptavina eru Kraftkort og Bílaforritun að selja þessa þjónustu sem að hluta er í besta falli á gráu svæði. Mögulega setja þessir aðilar traust sitt á að bifreiðaskoðunarfyrirtækin mæli ekki mengunaraukningu við árlega bifreiðaskoðun. Skortur á eftirliti er ekki réttlæting fyrir siðlausri starfsemi. Hitt er ljóst að Samgöngustofa og skoðunarstofurnar verða að geta metið útblásturinn með fullnægjandi hætti.
Hvað gerir EGR og DPF?
EGR-ventill (e. exhaust gas recircu-lation) er hluti af mikilvægum mengunarvarnarbúnaði í bensín- og dísilbílum sem dregur úr skaðsemi útblásturs. EGR-búnaðurinn heldur útlosun köfnunarefnisoxíða í lágmarki með því senda útblástursloftið aftur inn í brunaferli vélarinnar ef gildin eru há. NOx er
almennt hugtak fyrir köfnunarefnisoxíð sem eru meðal neikvæðustu aukaefna við bruna í sprengihreyflum. Þessi loftmengun er heilsuskaðandi, sérstaklega í þéttbýlum borgum. Köfnunarefnisoxíð (NO) og köfnunarefnistvíoxíð (NO2) stuðla að myndun súrs regns, mengunarmisturs og ósons í veðrahvolfinu.
Sótagnasíur eða DPF geta fangað frá 30% upp í 95% af skaðlegum sótögnum í útblæstri dísilbíla. Með bestu sótagnasíunum er hægt að draga útlosun sótagna niður í 0,001 gramm á kílómetra eða neðar.
Tilskipun framkvæmdastjórnar ESB og íslensk yfirvöld
Að mati FÍB er þetta inngrip í mengunarvarnarbúnað ökutækja ólöglegt athæfi. Í skoðunarreglugerð Evrópusambandsins (Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2010/48/ ESB) segir að bifreið fái ekki skoðun ef mengunarvarnarbúnaður framleiðenda sé ekki til staðar, breyttur eða augljóslega gallaður.Samkvæmt upplýsingum bifreiðatæknisérfræðinga hjá systurfélögum FÍB í Þýskalandi og Svíþjóð eru svona aðgerðir á skjön við lög, almennt siðferði og reglur í þeim löndum.
FÍB bar þessi mál undir Kristófer Ágúst Kristófersson deildarstjóra tæknimála ökutækja á farsviði Samgöngustofu. Hann sagði að stofnunin þyrfti að kanna þessi mál nánar. Ljóst væri að slík aðgerð, að taka mengunarvarnarbúnað ökutækis úr sambandi, væri mjög vafasöm og mögulega ólögleg.
Síðan væri spurning hvort þessar aðgerðir gætu skaðað vélar til lengri tíma. Samgöngustofa myndi í kjölfar ábeningar FÍB rannsaka málið og setja sig í samband við þá aðila sem bjóða upp á að endurforrita vélartölvur þar sem m.a. er verið að óvirkja EGR-ventla og taka sótagnasíur úr sambandi.
Meira afl, minni eyðsla en hvað með ábyrgðir?
Tilgangur endurforritunarinnar er að knýja fram aukið afl og draga úr eldsneytisnotkun bíla en minna er gert úr aukinni mengun í útblæstri. Telja má líklegt að við endurforritun geti gildandi skráning bíls verið röng, þ.e. vörugjaldsflokkunin og þar með álagning árlegra bifreiðagjalda. Í öllu falli geta
endurforritaðir bílar í sumum tilvikum ekki uppfyllt gerðarviðurkenningu framleiðenda sem er forsenda skráningar hér á landi.
Haft var samband við nokkra bílainnflytjendur og voru þeir inntir eftir áliti á þessum breytingum. Í máli þeirra koma fram að ef átt er við tölvukerfi bílsins eins og t.d. að kalla fram aukið afl sé það alveg skýrt að framleiðandinn tekur ekki lengur þátt í ábyrgð bílsins.
Ólöglegt?
Fulltrúi fyrirtækis sem auglýsir þessa þjónustu gaf lítið fyrir ólögmæti breytinganna í samtali við starfsmann FÍB og sagði að fjölda bifreiða hér á landi hefði nú þegar verið breytt með því að endurforrita vélartölvur þeirra og að engin athugasemd hafi verið gerð í árlegri bifreiðaskoðun. Það eru ekki eingöngu fólksbílar sem hafa farið gegnum þessar breytingar heldur einnig stærri bílar svo sem rútur og vörubílar.
Með því að eiga við mengunar- varnarbúnað margfaldast mengun og útlosun hættulegra agna í útblæstri bíls. Þegar verið er að eiga við rútur og vörubíla sem ekið er í þéttbýli er það enn alvarlegri aðgerð. Reglur varðandi útlosun mengandi efna frá ökutækjum eru settar út frá lýðheilsu- og
loftslagsmarkmiðum stjórnvalda og alþjóðlegra stofnanna.
Erfitt er fyrir lögaðila að gera ólögmætar breytingar á búnaði bíla og reyna að skýla sér að baki textabúta um lög og reglur. Hugsanlega telur fyrirtækið að ábyrgðin sé hjá eiganda bílsins en fagaðili getur ekki firrt sig ábyrgð vegna vinnu við breytingar sem varða við lög.
VW-hneykslið
Frægt var hneykslið 2015 þegar hugbúnaður var notaður til að svindla á útblástursprófum sem hægt var að finna í yfir 11 miljón bílum frá Volkswagen um allan heim. Hugbúnaðurinn slökkti á vélbúnaðinum þegar bílunum var ekið á hefðbundinn hátt og þar með jókst útblásturinn langt umfram leyfileg mörk. Mögulega var tilgangurinn sá að spara eldsneyti, auka tog og bæta hröðun en athæfið var ólöglegt og VW-samsteypan hefur þurft að greiða himinháar sektir og skaðabætur vegna þessa falshugbúnaðar.
(Ofangreind umfjöllun birtist í 2. tbl. FÍB-blaðsins sem er nýkomið út)